Körfubolti

Boston Celtics einum sigri frá úr­slitum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Úr leiknum í nótt.
Úr leiknum í nótt. EPA-EFE/RHONA WISE

Boston Celtics lagði Miami Heat með 13 stiga mun, 93-80, í fimmta leik liðanna í úrslitakeppni NBA-deildarinnar í körfubolta. Celtics er því aðeins einum sigri frá því að komast í úrslitaeinvígi deildarinnar.

Leikurinn var nokkuð jafn framan af og segja má að Miami Heat hafi verið yfirhöndina í fyrri hálfleik, staðan 42-37 þegar liðin gengu til búningsherbergja í hálfleik. Sóknarleikur Boston Celtics var afleitur en það átti heldur betur eftir að breytast í upphafi síðari hálfleiks.

Í þriðja leikhluta skoruðu leikmenn Boston nefnilega 32 stig gegn aðeins 16 hjá Miami og tóku þar með öll völd á vellinum. 

Fór það svo að Boston vann 13 stiga sigur, lokatölur 93-80. Er þetta annar leikurinn í röð þar sem Miami skorar undir 85 stig og þá var Jimmy Butler, stórstjarna liðsins langt frá sínu besta.

Það er mikið áhyggjuefni fyrir sjötta leik einvígisins ætli Miami sér að komast í oddaleik. Sigurvegari rimmunnar mætir að öllum líkindum Golden State Warriors í úrslit en Stephen Curry og félagar eru 3-1 yfir gegn Dallas Mavericks í hinu undanúrslitaeinvígi deildarinnar.

Jaylen Brown var stigahæstur allra á vellinum í nótt er hann skoraði 25 stig fyrir Boston. Þar á eftir kom Jayson Tatum með 22 stig en hann var einnig stoðsendingu frá þrefaldri tvennu.

Tatum tók nefnilega 12 fráköst og gaf svo 9 stoðsendingar. Hjá Miami var Bam Adebayo stigahæstur með 18 stig.


NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×