Körfubolti

Þakið lak þegar Dallas minnkaði muninn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Luka Doncic leiddi sína menn í Dallas Mavericks til sigurs á Golden State Warriors í nótt.
Luka Doncic leiddi sína menn í Dallas Mavericks til sigurs á Golden State Warriors í nótt. getty/Ron Jenkins

Dallas Mavericks er enn á lífi í úrslitum Vesturdeildar NBA eftir sigur á Golden State Warriors, 119-109, í fjórða leik liðanna í nótt. Staðan í einvíginu er 3-1, Golden State í vil.

Dallas var með fimmtán stiga forystu í hálfleik, 62-47. Seinni hálfleikurinn gat þó ekki hafist á réttum tíma því þakið á American Airlines höllinni í Dallas lak. Leikmenn liðanna þurftu að bíða í rúman stundarfjórðung á meðan starfsmenn hallarinnar reyndu að stöðva lekann.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem tafir verða á leik vegna leka í American Airlines höllinni. Það gerðist einnig þegar Dallas og Minnesota Timberwolves áttust við í mars síðastliðnum.

Dallas lét töfina á leiknum ekki á sig fá og jók forystuna í 3. leikhluta. Staðan að honum loknum var 99-70, heimamönnum í vil. Gestirnir löguðu stöðuna í 4. leikhluta en úrslitunum var ekki breytt.

Luka Doncic skoraði þrjátíu stig fyrir Dallas, tók fjórtán fráköst og gaf níu stoðsendingar. Dorian Finney-Smith skoraði 23 stig fyrir, Reggie Bullock átján og Jalen Brunson fimmtán.

Dallas hefur hitt illa úr þriggja stiga skotum í einvíginu en það breyttist í nótt. Heimamenn voru með 46,5 prósent þriggja stiga nýtingu.

Sjö leikmenn Golden State skoruðu tíu stig eða meira. Stephen Curry var þeirra stigahæstur með tuttugu stig. Hann gaf einnig átta stoðsendingar. 

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×