Handbolti

Aðeins tvö lið hafa beðið lengur eftir úrslitaeinvíginu en Valsmenn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Valsmenn eru ríkjandi Íslands- og bikarmeistarar.
Valsmenn eru ríkjandi Íslands- og bikarmeistarar. Vísir/Hulda Margrét

Valsmenn spila í kvöld í fyrsta sinn í ellefu daga þegar þeir taka á móti Eyjamönnum á Hlíðarenda í fyrsta leiknum í úrslitaeinvígi Olís deildar karla.

Valsliðið sópaði Selfyssingum út úr undanúrslitunum en ÍBV þurfti fjóra leiki á móti Haukum. ÍBV kláraði sitt einvígi 10. maí eða tveimur dögum á eftir Valsmönnum.

Það hafa aðeins tvö lið þurft að bíða lengur eftir úrslitaeinvíginu en Valsmenn frá því að úrslitakeppnin var tekin upp 1992.

Haukaliðið frá 2015 beið lengst eða í fimmtán daga vorið 2015. Haukarnir sópuðu þá út Valsmönnum 3-0 á sama tíma og undanúrslitaeinvígi Aftureldingar og ÍR fór alla leið í oddaleik.

Mosfellingar unnu oddaleikinn en þurftu engu að síður að bíða í tíu daga eftir úrslitaeinvíginu sem er nú fjórða lengsta biðin. Haukarnir unnu úrslitaeinvígið 3-0.

Síðasta lið til að bíða í meira en tíu daga eftir úrslitaeinvíginu var lið FH vorið 2017.

FH-ingar biðu þá í þrettán daga eftir að hafa slegið Aftureldingu 3-0 út í undanúrslitum. Valsmenn unnu líka sitt einvígi 3-0 en voru að keppa í undanúrslitum Evrópukeppninnar á sama tíma og því tók undirúrslitaeinvígi Vals og Fram fimmtán daga þrátt fyrir að það endaði 3-0.

Leikur Vals og ÍBV hefst klukkan 19.30 í Origo höllinni á Hlíðarenda en leikurinn verður sýndur beint á Stöð 2 Sport. Upphitun Seinni bylgjunnar hefst klukkan 18.50.

  • Lengsta bið eftir lokaúrslitum:
  • (Dagar á milli undanúrslita og lokaúrslita 1992-2022)
  • 15 dagar Haukar 2015 (21. apríl til 6. maí)
  • 13 dagar FH 2017 (27. apríl til 10. maí)
  • 11 dagar Valur 2022 (8. maí til 19. maí)
  • 10 dagar Afturelding 2015 (26. apríl til 6. maí)
  • 10 dagar Haukar 1994 (26. apríl til 6. maí)



Fleiri fréttir

Sjá meira


×