Körfubolti

Callum komst í einstakan hóp með Axel, Pálma og Páli

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Callum Reese Lawson fagnar sigri í leikslok.  Hann faðmar hér Kára Jónsson sem varð Íslandsmeistari í fyrsta skiptið á ferlinum.
Callum Reese Lawson fagnar sigri í leikslok.  Hann faðmar hér Kára Jónsson sem varð Íslandsmeistari í fyrsta skiptið á ferlinum. Vísir/Bára Dröfn

Callum Reese Lawson er Íslandsmeistari í körfubolta annað árið í röð og sá eini í heiminum sem getur sagt það.

Lawson vann titilinn með Þórsurum í Þorlákshöfn í fyrra og fylgdi því eftir með að vinna með Valsmönnum í ár.

Hann er aðeins sá fjórði í sögu úrslitakeppninnar sem nær slíkri tvennu, að vinna Íslandsmeistaratitilinn tvö ár í röð með sitt hvoru liðinu.

Axel Nikulásson var sá fyrsti þegar hann vann með Keflavík 1989 og svo með KR 1990.

Pálmi Freyr Sigurgeirsson bættist í hópinn þegar hann varð Íslandsmeistari með Snæfelli 2010 ári eftir að hann vann titilinn með KR.

Páll Fannar Helgason var sá þriðji en hann var samherji Pálmi hjá Snæfelli 2010 og vann síðan með KR-liðinu árið eftir. Páll Fannar spilaði reyndar bara í samtals tíu mínútur í lokaúrslitunum 2011 en var hluti af meistaraliði KR.

Uppfært: Í fyrstu útgáfu fréttarinnar gleymdis Páll Fannar og er hann beðinn afsökunar á því.

Lawson var með 13,5 stig og 5,4 fráköst að meðlatali í leik í úrslitakeppninni í ár og Valsliðið vann þær mínútur sem hann spilaði með 57 stigum.

Lawson hefði mögulega getað verið að fagna þriðja Íslandsmeistaratitlinum í röð með þriðja liðinu. Hann var leikmaður Keflavíkur sem var til alls líklegt vorið 2020 þegar kórónuveiran sá til þess að enginn Íslandsmeistaratitill fór á loft.

Lawson fagnaði sigri í 8 af 10 leikjum með Keflavík, hann var í sigurliði í 23 af 32 leikjum með Þór 2020-21 og vann síðan 23 af 33 leikjum með Valsliðinu í vetur. Í úrslitakeppni hefur hann unnið 18 af 24 leikjum með Þór og Val.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×