Körfubolti

Golden State menn létu Luka hafa mikið fyrir hlutunum og unnu leik eitt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Luka Doncic reynir að sækja að körfunni í leiknum í nótt en Stephen Curry er til varnar.
Luka Doncic reynir að sækja að körfunni í leiknum í nótt en Stephen Curry er til varnar. AP/Jed Jacobsohn

Golden State Warriors vann fyrsta leikinn örugglega á móti Dallas Mavericks í úrslitum Vesturdeildarinnar í NBA deildinni í körfubolta í nótt.

Stephen Curry var með 21 stig og 12 fráköst í þessum 112-87 sigri Golden State en varnarleikur Andrew Wiggins á Luka Doncic átti mikinn þátt í hversu vel gekk hjá heimamönnum.

Það var auðvitað vitað að til þess að Dallas ætti möguleika á sigri þyrfti Slóveninn snjalli að spila jafnvel og í sigrinum í oddaleiknum á móti Phoenix Suns á dögunum. Hann komst hins vegar aldrei á flug.

„Bara láta hann hafa fyrir hlutunum. Það er aðalatriðið,“ sagði Andrew Wiggins. Doncic skoraði reyndar 20 stig í leiknum en hitti aðeins úr 6 af 18 skotum sínum og tapaði sjö boltum. Hann var aðeins með tvö stig í öllum seinni hálfleiknum og það skýrir mikið hvernig leikurinn þróaðist eftir hlé.

„Þeir stóðu sig mjög vel. Það er ekkert flóknara. Þeir gerðu mjög vel,“ sagði Luka Doncic sem var vel merktur í andlitinu eftir rispu í boði Wiggins. „Lætur mig líta út eins og ég harður af mér,“ sagði Doncic sem vildi ekki gera mikið úr því.

„Wiggs var frábær. Það eru fáir leikmenn í deildinni erfiðari að ráða við en Doncic og það er því mikilvægt að hann þurfti að hafa mikið fyrir þessu. Hann er svo góður en við erum bara að reyna að lágmarka skaðann,“ sagði Steve Kerr, þjálfari Golden State Warriors.

Warriors liðið vann fyrsta leikhlutann 28-18 og var níu stigum yfir í hálfleik, 54-45, eftir að Doncic hitti úr tveimur þriggja stiga skotum í röð. Hann hitti aðeins úr 1 af 8 þristum fyrir utan það og það er bara langt frá því að vera nóg á móti liði eins og Golden State.

Wiggins spilaði ekki aðeins góða vörn því hann var með 19 stig og hitti meðal annars úr sex af fyrstu átta skotum sínum í leiknum. Jordan Poole kom með 19 stig af bekknum og Klay Thompson skoraði 15 stig.

NBAFleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.