Körfubolti

Ætlar ekki að hætta þrátt fyrir sögulegt hrun Phoenix

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hinn 37 ára Chris Paul ætlar að spila á næsta tímabili.
Hinn 37 ára Chris Paul ætlar að spila á næsta tímabili. getty/Christian Petersen

Þrátt fyrir að algjört hrun hjá Phoenix Suns í oddaleiknum gegn Dallas Mavericks í undanúrslitum Vesturdeildar NBA er engan bilbug á Chris Paul að finna. Hann ætlar ekki að leggja skóna á hilluna strax.

Paul og félagar voru rassskelltir í leiknum gegn Dallas í nótt. Úrslitin voru svo gott sem ráðin í hálfleik enda Dallas þrjátíu stigum yfir, 27-57. Aldrei hefur verið meiri munur á liðum í hálfleik í oddaleik í sögu NBA. Á endanum var munurinn 33 stig, 90-123, og Phoenix því komið í sumarfrí.

Phoenix var með besta árangur allra liða í deildarkeppninni og komst í 2-0 og 3-2 í einvíginu gegn Dallas áður en allt hrundi.

Paul átti afar erfitt uppdráttar í nótt og lauk leik með tíu stig og fjórar stoðsendingar. Í einvíginu gegn Dallas var Paul með 13,4 stig, 4,0 fráköst og 5,7 stoðsendingar að meðaltali í leik.

Þótt Paul sé orðinn 37 ára ætlar hann að halda áfram að spila. „Þegar þú spilar svona lengi og vinnur ekki titil er alltaf sagt að þú hafir misst af þínu besta tækifæri þegar þú tapar,“ sagði Paul.

„Við snúum aftur á næsta ári, ég get sagt ykkur það. Ég ætla ekki að hætta á morgun, guði sé lof. Vonandi kem ég heill til baka en ég ætla að halda áfram að spila.“

Paul var að klára sitt sautjánda tímabil í NBA. Hann var valinn númer fjögur í nýliðavalinu 2005.

NBAFleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.