Körfubolti

„Ég get ekki hætt að brosa“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Luka Doncic brosti allan hringinn eftir að Dallas Mavericks rúllaði Phoenix Suns upp í hreinum úrslitaleik einvígis þeirra í nótt.
Luka Doncic brosti allan hringinn eftir að Dallas Mavericks rúllaði Phoenix Suns upp í hreinum úrslitaleik einvígis þeirra í nótt. AP/Matt York

Boston Celtics og Dallas Mavericks tryggðu sér bæði sæti í úrslitum deildanna í NBA deildinni í körfubolta eftir sannfærandi sigra í oddaleik í nótt.

Boston Celtics mætir því Miami Heat í úrslitum Austurdeildarinnar en Dallas Mavericks spilar við Golden State Warriors í úrslitum Vesturdeildarinnar. Einvígi Boston og Miami byrjar á þriðjudaginn en einvígi Dallas og Golden State á miðvikudaginn.

Dallas Mavericks tók heimamenn í Phoenix Suns í kennslustund í Phoenix með því að vinna oddaleik liðanna með 33 stiga mun, 123-90.

„Fullt af fólki hélt að þetta yrði burst. Þau höfðu rétt fyrir sér,“ skaut Jason Kidd, þjálfari Dallas Mavericks, á spekingana eftir leikinn en heimaliðið hafði unnið fyrstu sex leiki einvígsins og Phoenix Suns var líka með besta árangurinn í deildarkeppninni.

Það voru hins vegar Dallas-menn og þá ekki síst Luka Doncic sem voru klárir í þetta risapróf á útivelli. Doncic hitti úr þremur fyrstu skotunum sínum og kom hlutunum á hreyfingu. Dallas var komið tíu stigum yfir eftir fyrsta leikhlutann, 27-17, og búið að ná þrjátíu stiga forskoti í hálfleik, 57-27.

„Ég get ekki hætt að brosa. Ég er bara rosalega ánægður og ef ég segi alveg eins og er þá held ég að við höfum átt þetta skilið,“ sagði Luka Doncic eftir leikinn. Hann var kominn með 27 stig í hálfleik eða jafnmikið og allt Suns-liðið.

Doncic endaði með að skora 35 stig á 30 mínútum en hann hitti úr 6 af 11 þriggja stiga skotum og var einnig með 10 fráköst og 4 stoðsendingar. Spencer Dinwiddie kom einnig með 30 stig og fimm þrista af bekknum og þá var Jalen Brunson með 24 stig.

Cameron Johnson var stigahæstur með 12 stig en Deven Booker (11 stig) og Chris Paul (10 stig) voru samtals með aðeins 21 stig og 6 stoðsendingar og miðherjinn Deandre Ayton skoraði bara fimm stig. Langt frá því að vera nóg í úrslitaleik eins og þessum.

Grant Williams skoraði 27 stig og setti niður sjö þriggja stiga körfur þegar Boston Celtics vann sannfærandi 28 stiga sigur á fráfarandi meisturum í Milwaukee Bucks, 109-81. Bucks var 3-2 yfir í einvíginu en Boston vann tvo síðustu leikina.

Boston setti nýtt met í leik sjö með því að skora samtals 23 þriggja stiga körfur í leiknum. Þeir fengu 54 stigum meira úr þristum heldur en lið Milwaukee Bucks.

Jayson Tatum var með 23 stig og leit á það sem áskorun þegar liðið lenti með bakið upp við vegg. „Eins og það var sárt að tapa leik fimm þá hlakkaði ég til að takast á við þessa áskorun. Ég hef trú á sjálfum mér og ég hef trú á mínu liði. Ég átti von á að spila svona og að liðið myndi svara með þessum hætti,“ sagði Tatum.

Milwaukee var með frumkvæðið framan af leik en Boston tók öll völd í seinni leiknum sem liðið vann 61-38. Giannis Antetokounmpo gerði mikið en það dugði ekki. Hann endaði með 25 stig, 20 fráköst og 9 stoðsendingar en virkaði útkeyrður í seinni hálfleik þegar hann hitti aðeins úr 3 af 11 skotum sínum inn í teig þar af bara 1 af 6 í lokaleikhlutanum. Jrue Holiday var með 21 stig og 8 stoðsendingar.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×