Erlent

Forseti Sameinuðu arabísku furstadæmanna látinn

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Sheikh Khalifa bin Zayed Al Nahyan með Karli Bretaprins í Lundúnum.
Sheikh Khalifa bin Zayed Al Nahyan með Karli Bretaprins í Lundúnum. Getty/ John Stillwell

Sheikh Khalifa bin Zayed al-Nahyan forseti Sameinuðu arabísku furstadæmanna er látinn, 73 ára að aldri. Khalifa hefur verið forseti furstadæmanna frá árinu 2004 en hefur aðeins komið fram við hátíðartilefni vegna heilablóðfalls sem hann fékk árið 2014. 

Hálfbróðir Khalifa, Mohamed bin Zayed al-Nahyan, hefur tekið við innanríkismálum. Fjölskyldan er ein ríkasta konungsfjölskylda heims og er talin eiga um 150 milljarða Bandaríkjadala, eða um 20 billjónir króna. 

Auk þess að vera forseti Sameinuðu arabísku furstadæmanna var Sheikh Khalifa einnig leiðtogi Abu Dhabi, höfuðborgar olíuríkjanna sjö sem sameinast í arabísku furstadæmunum. 

Andlát hans var tilkynnt á ríkisfréttastofunni WAM í dag. Forsetaembættið boðaði í dag til fjörutíu sorgardaga, flaggað verður í hálfa stöng frá deginum í dag og fólk þarf ekki að mæta til vinnu næstu þrjá daga, hvorki í opinbera- né einkageiranum. 

Eins og áður segir tók Khalifa við embætti annars forseta Sameinuðu arabísku furstadæmanna í nóvember 2004 og við embætti leiðtoga Abu Dabhi eftir andlát föður hans. Fyrsta áratuginn leiddi hann umfangsmiklar breytingar á stjórnsýslu Sameinuðu arabísku furstadæmanna og stjórnsýslu Abu Dhabi. 

Eftir að hann fékk heilablóðfall árið 2014 hefur hann hins vegar haldið sig frá sviðsljósinu og hefur sjaldan komið fram opinberlega, þó hann hafi hadlið áfram að stjórna ríkinu á bak við luktar dyr. 

Mohammed bin Rashid al-Maktoum, varaforseti Sameinuðu arabísku furstadæmanna og leiðtogi Dubai, mun taka við forsetaembættinu tímabundið þar til ríkisráð furstadæmanna boðar til fundar leiðtoga furstadæmanna sjö. Það verður að gerast innan þrjátíu daga og þar verður nýr forseti landsins valinn. Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.