Um­­fjöllun og við­töl: Tinda­­­stóll - Valur 91-75 | Allt jafnt eftir stór­leik Stólanna á Króknum

Ísak Óli Traustason skrifar
Tindastóll vann frækinn sigur í kvöld.
Tindastóll vann frækinn sigur í kvöld. Vísir/Bára Dröfn

Tindastóll hefur jafnað metin í úrslitaeinvígi Subway deildar karla í körfubolta. Stólarnir byrjuðu af krafti og unnu á endanum öruggan 16 stiga sigur. Staðan í einvíginu nú 1-1. Stólarnir hafa ekki tapað á heimavelli sínum síðan 10. febrúar en liðið hefur unnið tíu heimaleiki í röð.

Tindastóll mætti til leiks með miklum krafti og settu niður nánast hvert einasta skot á meðan að brösulega gekk hjá Val að skora. Staðan 13 – 3 eftir fjórar mínútur og allir í byrjunarliði Tindastóls komnir á blað. Valur náði aðeins að hægja á heimamönnum og staðan eftir fyrsta leikhluta var 24 – 15.

Annar leikhluti var síðan eign Tindastóls, þeir skora 29 stig á Val og neyða þá í tapaða bolta, ásamt að vera að skjóta 16/18 fyrir innan þriggja stiga línunna í fyrri hálfleik. Staðan í hálfleik var 53 – 34 fyrir Tindastól og allur meðbyr þeirra meginn.

Valur náði ekki að koma sér inn í leikinn í þriðja leikhluta og Tindastóll leiddu eftir hann 69 – 53.

Valur byrjaði fjórða leikhlutann vel og komu muninum niður í 10 stig og það gekk erfiðlega fyrir Tindastól að skora körfu utan af velli, þeir komu sér þó á vítalínunna og héldu áfram að skora. Heimamenn svöruðu þessu áhlaupi gestanna af krafti og sigldu öruggum sigri heim. Lokatölur 91 – 75.

Af hverju vann Tindastóll?

Þeir mættu vel stemmdir til leiks og keyrðu vel á Valsara í upphafi. Náðu að búa til 10 stiga forustu snemma í leiknum sem að Valsmenn náðu aldrei að brúa og unnu að lokum nokkuð sannfærandi sigur.

Það voru margir að skila framlagi fyrir Tindastól og þeir fá 32 stig af bekknum í kvöld. Þeir neyða Val í 18 tapaða bolta og Valur virtist vera skrefinu á eftir í ákefð.

Tindastóll keyrði upp hraðann og skora 21 eftir hraðaupphlaup.

Hverjir stóðu upp úr?

Pétur Rúnar Birgisson átti flottan leik fyrir Tindastól með 11 stoðsendingar og 1 tapaðan bolta. Hann bæti við 9 stigum og 6 fráköstum. Taiwo Badmus heldur áfram að vera flottur og endar með 22 stig og 8 fráköst. Sigurður Gunnar Þorsteinsson, kom með dýrmætt framlag af bekknum, 15 stig, 5 fráköst, 3 stolna bolta og 2 varin skot.

Hjá Val var Jacob Dalton flottur með 16 stig og 6 fráköst af bekknum og Kári Jónsson var með 14 stig og 5 stoðsendingar.

Hvað hefði mátt betur fara?

Valur náði ekki að jafna ákefðina sem að Tindastólsliðið spilaði á.

Tindstóll stjórnaði hraðanum í leiknum sem er dýrmætt fyrir þá og náðu að keyra á Val.

Valur þarf að fækka töpuðum boltum en þeir tapa 18 slíkum í leiknum.

Hvað gerist næst?

Serían er jöfn 1 – 1 og næst leikur er í Origo – Hölinni næstkomandi fimmtudag kl 20:30.

Sitt lítið af hverju sem fór úrskeiðis

Kári gegn Javon Anthony Bess.Vísir/Bára Dröfn

Kári Jónsson, leikmaður Vals var svekktur í leikslok en óskaði Tindastól til hamingju með sigurinn ,,þeir voru flottir hérna í dag og mættu miklu tilbúnari og við þurfum að gera miklu betur“.

„Hrós á þá, þeir setja fullt af erfiðum skotum líka og hittu mjög vel í byrjun og komust í góðan takt og það var erfitt að stoppa það, við vorum að klikka mikið úr þægilegum skotum til að byrja með og það vatt upp á sig.“

„Við þurfum eiginlega að gera bara allt betur, það fór allt úrskeiðis sem gat farið úrskeiðis. Við gleymum þessum leik þá bara og mætum sterkari á heimavöll næst.“

Valur tapaði 18 boltum í leiknum en fannst Kára það ekki vera helsta vandamál þeirra heldur klúðraðar varnarfærslur og sóknarfærslur og bara sitt lítið af hverju sem fór úrskeiðis.

Þetta er allavega orðin sería

Baldur Þór, þjálfari Tindastóls.Vísir/Bára Dröfn

Baldur Þór Ragnarsson, þjálfari Tindastóls var ánægður með sigur sinna manna í kvöld.

„Þetta er allavega orðin sería.Við vorum staðráðnir í því að mæta og gera það sem við stöndum fyrir, vera agressive og sækja hratt, það gekk vel í kvöld.“

„Við gerðum vel varnarlega í þessum leik og ég er mjög ánægður að hafa gert þetta að seríu.“

Tindastóll fer á Hlíðarenda á fimmtudaginn næsta.

„Það er bara næsti leikur, þetta verður bara stríð áfram þannig að við þurfum að gera alla hlutina sem við viljum gera vel, þurfum að gera þá vel og þá getum við unnið þá. En ef við erum ekki að gera þá, þá vinnum við ekki.“

„Við vorum bara að hitta í byrjun leiks, það er ákveðinn ryðmi í þessu, vörn að tengjast við sóknina, góður leikur og áfram gakk.“

Þurfum að koma til baka með svör og finna leiðir til þess að vinna

Finnur Freyr, þjálfari Vals.Vísir/Hulda Margrét

„Þeir voru bara miklu betri, settu tóninn snemma og voru betri“, sagði Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari Vals strax eftir leik.

„Vorum að fá aftur svona klaufalegar körfur og vel gert hjá Stólunum. Þeir undirbjuggu sig vel og náðu okkur snemma á hælana og refsuðu okkur.“

Valur náði að minnka muninn niður í 10 stig í fjórða leikhluta: „Þá gerum við okkur seka um klúðursleg mistök og ég fæ á mig tæknivillu og töpum boltanum og í staðinn fyrir að ná tveimur til þremur góðum sóknum í röð þá misstum við þá frá okkur aftur.“

Valur tapaði 18 boltum í leiknum og var Finnur sammála því að það væri allt of mikið og að þeir viti að Tindastóll spili agressíft

„Stólarnir voru bara betri og því fór sem fór. Þetta er úrslitakeppnin, það eru sveiflur í þessu og Stólarnir voru virkilega góðir í dag og komu sterkir inn í leikinn, við þurfum að koma til baka með svör og finna leiðir til þess að vinna.“


Subway-deildirnar í körfubolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Subway-deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira