Umfjöllun og viðtöl: Selfoss - Valur 29-35 | Valsmenn geta klárað einvígið á heimavelli

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Valsmenn eru með pálmann í höndunum í undanúrslitaeinvíginu gegn Selfyssingum.
Valsmenn eru með pálmann í höndunum í undanúrslitaeinvíginu gegn Selfyssingum. Vísir/Hulda Margrét

Valur vann góðan sex marka sigur er liðið heimsótti Selfoss í öðrum leik liðanna í undanúrslitum Olís-deildar karla, 29-35. Valsmenn leiða nú einvígið 2-0 og geta því komið sér í úrslit með sigri á heimavelli í næsta leik.

Fyrri hálfleikur bauð upp á mikinn hraða og mikla skemmtun. Selfyssingar byrjuðu örlítið betur, en Valsmenn voru fljótir að finna taktinn og við tók jöfn barátta þar sem liðin skoruðu á víxl.

Gestirnir í Val náðu forystunni þegar fyrri hálfleikurinn var hálfnaður og liðið hélt tveggja marka forskoti langleiðina að hálfleikshléinu.

Selfyssingar voru þó aldrei langt undan og jöfnuðu metin á ný í stöðunni 14-14 þegar um tvær mínútur voru eftir af fyrri hálfleiknum. Það voru þó Valsmenn sem áttu seinasta orðið og þeir fóru með eins marks forystu inn í hléið, staðan 15-16.

Gestirnir mættu svo af sama krafti í síðari hálfleikinn á meðan Selfyssingar virtust orðnir þreyttir. Valsmenn héldu áfram að keyra seinni bylgjuna af miklum krafti og uppskáru þannig auðveld mörk, en Selfyssingar virtust lítið ráða við mikinn hraða gestanna.

Þegar sjö mínútur voru liðnar af síðari hálfleik voru Valsmenn komnir með fimm marka forskot, en þá tók Halldór Jóhann Sigfússon leikhlé fyrir Selfyssinga. 

Heimamenn fóru í sjö á sex og við það náði liðið fínu áhlaupi. Selfyssingar fengu fín færi til að minnka muninn niður í tvö mörk, en þá hrukku Valsmenn aftur í gang og keyrðu endanlega yfir Selfyssinga. 

Eftir það var sigur gestanna í raun aldrei í hættu og liðið vann að lokum sex marka sigur, 29-35. 

Af hverju vann Valur?

Valsmenn búa yfir ótrúlegum hraða og ef andstæðingar þeirra ná ekki að skila sér í vörn á tilsettum tíma þá skora Valsarar yfirleitt auðveld mörk. Liðið keyrði í bakið á Selfyssingum í 60 mínútur í kvöld og á endanum brotnuðu heimamenn.

Hverjir stóðu upp úr?

Þeir voru nokkrir í Valsliðinu sem áttu vel rúmlega góðan leik í kvöld. Arnór Snær Óskarsson var drjúgur í sóknarleik Valsmanna þegar Selfyssingar náðu að stilla upp í vörn og þá voru hornamenn gestanna í stóru hlutverki og skoruðu mikið úr hraðaupphlaupum og snöggum sóknum.

Í liði Selfyssinga átti Richard Sæþór Sigurðsson fínan leik og skoraði sjö mörk úr níu skotum.

Hvað gekk illa?

Eins og hefur komið fram þá gekk Selfyssingum alla jafna illa að stilla upp í vörn. Liðið stóð vörnina vel þegar þeir komust til baka, en tapaðir boltar og hraði Valsmanna almennt kom heimamönnum oft í vandræði.

Hvað gerist næst?

Þriðji leikur liðanna fer fram á sunnudaginn í Origo-höllinni þar sem Valsmenn geta klárað einvígið og sópað Selfyssingum í sumarfrí. Leikurinn hefst klukkan 19:30 og verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

Snorri: Pottþétt alveg fullt sem við getum lagað

Snorri Steinn Guðjónsson var ánægður með sigur sinna manna í kvöld.Vísir/Hulda Margrét

Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Vals, var eins og við var að búast ánægður með sigur sinna manna í kvöld.

„Mér líður bara alveg eins og eftir fyrri leikinn, mjög vel,“ sagði Snorri í leikslok.

„Torsóttur og ekki torsóttur. Þetta var bara góður leikur eins og hinn af okkar hálfu og ekkert ósvipaður. Þetta var stál í stál í fyrri hálfleik og svo komum við vel inn í seinni og gefum aðeins í og náum forskoti sem við látum ekkert af hendi.“

Eins og fram hefur komið þá búa Valsmenn yfir afar sterku vopni sem hraði þeirra er. Liðið getur keyrt hraðaupphlaup og seinni bylgju í 60 mínútur án þess að blása úr nös, en Snorri vildi þó ekki segja til um það hvort hans menn væru í betra formi en önnur lið.

„Ég ætla ekki að dæma formið á Selfyssingum, það er ekki mitt að dæma það. En við erum í góðu formi og við spilum svona bolta. Til þess þá þurfum við að vera í fínu standi.“

„Svo eru strákarnir bara góðir í þessu. Þeir gera þetta vel og við náum líka að vera þokkalega agaðir í þessu. Það er náttúrulega lykilatriði líka þegar við erum að mörgu leyti líka að taka sénsa.“

Þrátt fyrir sex marka sigur sinna manna í kvöld gat Snorri þó séð ýmislegt sem mátti laga.

„Ég var ekki ánægður með okkur varnarlega. Mér fannst við ekki alveg ná taktinum þar. Bara svipað og í seinasta leik þá fannst mér 5:1 vörnin breyta taktinum aðeins og þvinga þá í sjö á sex.“

„Það er pottþétt alveg fullt sem við getum lagað. Ég vil ekkert vera að fá á mig nálægt 30 mörkum í leik, en leikurinn er hraður og við svo sem bjóðum líka aðeins upp á það að fá svona margar sóknir á okkur.“

Valsmenn geta nú klárað einvígið með sigri í Origo-höllinni á sunnudaginn og sópað þannig Selfyssingum í sumarfrí. Þá er möguleiki á smá pásu fyrir liðið ef einvígi Hauka og ÍBV dregst á langinn, en Snorri segist helst vilja spila þétt.

„Ég er nú minnst að hugsa um einhverja pásu. Þetta má alveg vera þétt fyrir mér. En það gefur auga leið að þegar maður er kominn í 2-0 og á leiðinni á heimavöll þá ætlum við okkur að klára dæmið. Við þurfum bara að endurheimta vel og passa upp á menn sem eru laskaðir og safna orku. Svo þurfum við bara að mæta enn þá gíraðari til leiks á sunnudaginn,“ sagði Snorri að lokum.

Halldór Jóhann: Hversu oft eiga þeir að fá að taka ólöglega hraða miðju?

Halldór Jóhann, þjálfari Selfyssinga.Vísir/Hulda Margrét

„Við bara gerum of mikið af mistökum,“ sagði Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfari Selfyssinga eftir tapið.

„Það bara í rauninni ríður baggamuninn. Þeir gera ótrúlega fá mistök og við náum ekki að stoppa þeirra færslu sóknarlega í seinni bylgjunni og uppstilltum sóknarleik. Þegar við vorum að ná því fram sem við vildum ná fram þá fannst mér við spila frábæra vörn á stórum kafla í leiknum, en við dettum of oft niður og það er ákveðinn fókus sem mér finnst fara frá okkur í hlaupunum til baka. Líka eins og síðasta leik þá kemur kafli þar sem við missum þá of langt frá okkur. “

Eins og margoft hefur komið fram þá búa Valsmenn yfir ótrúlegum hraða sem fæst lið á Íslandi ráða við og Halldór hrósaði andstæðingum kvöldsins fyrir sinn leik.

„Auðvitað eru þeir með marga snögga og kannski minni leikmenn. Og við erum líka með leikmenn sem hafa kannski verið inn og út í vetur vegna meiðsla. En þeir eru með frábært lið og núna ná þeir að hvíla Róbert Aron og Magnús Óla nánast meirihlutann af leiknum.“

„Þeir sem eru að draga vagninn hjá þeim í kvöld eru bara uppaldir Valsstrákar sem er náttúrulega bara frábært fyrir Val. Í fyrsta skipti í mörg ár að þeir séu að draga vagninn, en ekki einhverjir aðkeyptir strákar.“ 

Þrátt fyrir tapið fengu Selfyssingar mikinn og góðan stuðning úr stúkunni og Halldór gat ekki annað en þakkað fyrir það áður en hann nefndi það sem honum hefði þótt mega betur fara í dómgæslunni.

„Það vantar ekkert hérna frá okkar fólki. Það styður við bakið á okkur sama hvað. En auðvitað hefðum við viljað gefa fólkinu okkar betri leik og Völsurunum líka.“

„En mér finnst fasið á þessu Valsliði vera helvíti gott. Þeir eru að spila vel og gera ótrúlega fá mistök. En bara eitt atriði af því að maður er að fara í gegnum ótrúlega marga leiki. Hversu oft eiga þeir að fá að taka ólöglega hraða miðju? Hversu oft á að leyfa það?“ spurði Halldór.

„Ég er búinn að sjá þetta oft í þeim leikjum sem ég er búinn að vera að klippa. Og 100 prósent er undantekningin ekki þessi leikur og miðjan hafi alltaf verið rétt. Eru dómararnir ekki í standi til þess að fylgja þessu eftir? Hver á að fylgja þessu eftir ef þeir eru ekki í standi til þess eða geta það ekki? Við erum með kannski átta til tíu mörk í síðasta leik á móti þeim sem er hægt að segja að séu ólögleg miðja. Það er ansi mikið ef það fær að viðgangast. Mér finnst þetta vera svona hlutur sem er allt í lagi að ræða. Þetta er kannski fíllinn í herberginu sem við þurfum að ræða.“

Selfyssingar eru nú í erfiðri stöðu, enda er liðið 2-0 undir í undanúrslitaeinvígi gegn líklega besta liði landsins. Halldór er þó ekki tilbúinn að leggja árar í bát og segir að sínir menn muni berjast fram á síðustu sekúndu.

„Við gefumst auðvitað aldrei upp og núna byrjar auðvitað bara undirbúningur fyrir næsta leik og næsti leikur er alltaf sá mikilvægasti. Þessi leikur var líka sá mikilvægasti, en núna er hann bara farinn og við þurfum bara að undirbúa okkur fyrir næsta leik og skoða þetta.“

„Til þess að við náum að vinna Valsarana þá þurfum við að halda þessum fókuspunkti á ákveðnum hlutum í leiknum hærra. Við þurfum að hætta að gera ótrúlega aulaleg mistök. Tæknifeilarnir okkar eru sennilega þrisvar eða fjórum sinnum fleiri en hjá þeim og það er ótrúlega mikið,“ sagði Halldór að lokum.

Richard Sæþór: Þú þarf bara að vera „on“ allan leikinn

Richard SæþórVísir/Hulda Margrét

Richard Sæþór Sigurðsson, hornamaður Selfyssinga, var niðurdreginn eftir tap kvöldsins.

„Mér líður ekki vel. Við vorum með fulla stúku og frábæran stuðning. Við lögðum okkur alla fram en það vantaði kannski klókindi í hlaupunum til baka,“ sagði Richard að leik loknum.

„Það svona aðeins drepur okkur. Tapaðir boltar og við erum að hlaupa oft til baka, en ekki nógu klókir að pikka upp menn.“

Richard var þó sammála því að þegar Selfyssingarnir náðu að stilla upp í vörn þá spiluðu þeir hana að miklu leyti vel.

„Mér finnst við oft vera komnir til baka, nema ef þeir eru að ná þessum fyrstu bylgju hraðaupphlaupum sem þeir eru líka góðir í. En þetta er ekkert sem að vídjófundur lagar. Við erum góðir í uppstilltri vörn og sóknarlega erum við oftast að finna lausnir finnst mér. En þú þarf bara að vera „on“ allan leikinn. Þeir bara keyra og keyra og við verðum að passa upp á þessir fimm til tíu mínútna kaflar komi ekki fyrir aftur.“

Selfyssingar gáfu gestunum ágætis leik í fyrri hálfleik, en svo fór að fjara undan. Svipaða sögu var að segja af fyrsta leik liðanna og Richard segir að þetta sé eitthvað sem liðið þarf að einblína á að bæta.

„Við þurfum bara fyrst og fremst að halda betur í boltann. Við vorum með lítið af töpuðum boltum í fyrri og við erum búnir að spila flottan fyrri hálfleik í báðum leikjum. En það er þessi kafli sem er að koma þar sem við erum að tapa boltanum og fá hraðaupphlaup í bakið. Ef við náum að stoppa það og helst komast aðeins yfir og vera aðeins yfir í seinni hálfleik þá er spurning hvernig þeir bregðast við því.“

Fyrir fyrsta leik liðanna sem fram fór á mánudaginn höfðu Selfyssingar ekki tapað í Origo-höllinni í rúm ellefu ár. Richard segir að nú sé kominn tími til að byrja þá sigurhrinu upp á nýtt og jafnvel hafa hana lengri í þetta skipti.

„Aftur ellefu ár? Höfum þetta tólf ár núna. Það væri betra. Það er alltaf hægt að bæta sig,“ sagði Richard léttur að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.