Handbolti

„Eigum að geta spilað í 60 mínútur þó við séum þreyttir“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Hergeir, fyrirliði Selfyssinga.
Hergeir, fyrirliði Selfyssinga. Vísir/Vilhelm

Hergeir Grímsson, fyrirliði Selfyssinga, var niðurlútur eftir sjö marka tap liðsins á heimavelli gegn Val í undanúrslitum Olís-deildar karla í handbolta í kvöld. Valsmenn leiða nú einvígið 2-0 og Hergeir og félagar eru því með bakið upp við vegg.

„Þetta var bara fínn fyrri hálfleikur þannig séð. Við spiluðum ágæta sókn og vörn. En svo bara komum við eiginlega ekkert inn í seinni hálfleikinn,“ sagði Hergeir í leikslok.

„Við missum þá frá okkur á fyrstu fimm mínútunum og töpuðum mikið af boltum. Þetta fór svolítið frá okkur þar. En við börðumst allan tíman og komumst aðeins inn í þetta þegar við fórum í sjö á sex. Við spiluðum fína vörn, en þeir náttúrulega bara keyra á okkur og skora úr mikið af hraðaupphlaupum á okkur á meðan við keyrðum illa til baka.“

Eins og Hergeir segir þá náðu Selfyssingar  vopnum sínum um stutta stund þegar liðið fór í sjö á sex. Fljótlega fundu Valsmenn þó aftur taktinn og gerðu út um leikinn stuttu eftir það. Hergeir segir að það hafi dregið kraft úr liðinu að missa gestina aftur fram úr sér.

„Jú það fer aðeins með móralinn. Það var þarna smá móment með okkur, en það bara fjaraði út. Það var kannski lítil orka í okkur og við vorum að spila á fáum mönnum. En við eigum samt að geta spilað í 60 mínútur þó við séum þreyttir og stoppað þessar hröðu sóknir. Bara að keyra heim og svona þessi grunnatriði í handbolta. Mér finnst við eiga að geta gert það betur þótt við séum orðnir þreyttir.“

Selfyssingar eru nú með bakið upp við vegg og ekkert annað en sigur dugir svo að liðið sé ekki á leið í sumarfrí. Hergeir gerir sér grein fyrir því og segir að hans menn muni mæta í Origo-höllina á sunnudaginn til að vinna.

„Við ætlum að mæta á sunnudaginn og spila til sigurs, það er engin spurning. Við ætlum að mæta 100 prósent og við vitum hvað við þurfum að gera til þess að vinna. Við þurfum bara að gera það. Við fáum fullt af fólki með okkur, ég efast ekkert um það. Stuðningurinn í kvöld var magnaður og við ætlum að mæta á sunnudaginn og vinna. Það er ekki spurning,“ sagði Hergeir að lokum.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.