Lífið

Oddvitaáskorunin: Sætti sig ekki við að vera sleppt af löggunni

Samúel Karl Ólason skrifar
HelgaDís

Vísir stendur fyrir Oddvitaáskoruninni 2022 þar sem skorað er á oddvita allra flokka í sveitarfélögum um land allt að taka þátt. Áskorunin felur í sér stutta kynningu og að svara nokkrum léttum spurningum.

Helga Dís Jakobsdóttir leiðir lista Raddar unga fólksins í Grindavík í komandi sveitarstjórnarkosningum.

Ég heiti Helga Dís Jakobsdóttir og er 31 árs. Ég er fædd og uppalin í Grindavík. Ég útskrifaðist úr Menntaskólanum á Akureyri og bjó þar í 4 ár á heimavist. Eftir það tók ég BS í viðskiptafræði með áherslu á stjórnun og forystu við Háskóla Íslands og MS í þjónustustjórnun. Ég starfa sem þjónustu- og upplifunarstjóri hjá verslunum Nettó.

Á Þorbirni með Grindavík í baksýn.

Fyrir síðustu sveitarstjórnakosningar stofnuðum við nokkur ungmenni Rödd unga Fólksins og buðu fram í Grindavíkurbæ. Ástæðan fyrir því var að okkur fannst vanta ungt fólk í bæjarstjórn og nefndir bæjarins. Á þessum tíma vorum við flest á þeim stað að ákveða hvort að við ætluðum að kaupa okkar fyrstu eign í Grindavík eða annars staðar. Við vorum sammála um það að hér viljum við búa. Við höfðum skoðanir á ýmsum hlutum, vildum taka þátt í ákvarðanatöku bæjarins og ákváðum því að taka slaginn.

Sjálf hef ég alltaf haft mikinn áhuga á pólitík en aldrei geta staðsett mig í einhvern ákveðinn flokk. Eftir þó nokkur samtöl við ungt fólk í Grindavík þá kom í ljós að fleiri voru á sama stað. Það er mikilvægt að til sé afl þar sem ungt fólk getur stigið sín fyrstu skref í bæjarpólitíkinni.

Ég er ótrúlega stolt að hafa verið hluti af því að koma þessari hreyfingu af stað. Mín sýn er sú að þetta opni umræðuna og áhuga hjá ungu fólki á málefnum bæjarins. Það er margt sem þarf að gera þegar flokkur fer í framboð og verkefnin mörg. Við höfum verið svo heppin að fá mikið af ungu og hæfileikaríku fólki til þess að að vinna með okkur. Verkefni sem snúa að ljósmyndun, myndbands- og hlaðvarpsgerð, skipulagi viðburða í kosningabaráttunni o.fl..

Pólitík fælir oft ungt fólk frá. Ég skil það vel því stundum verður umræðan óvægin og ómálefnaleg. En við getum ekki stjórnað öðrum. Við getum aðeins stjórnað okkur sjálfum. Við hjá Rödd unga fólksins höfum einbeitt okkur að því að vera málefnaleg, að hafa hagsmuni bæjarfélagsins í heild sinni að leiðarljósi og hafa gaman.

Eitt af okkar gildum er að við erum teymi, það skiptir ekki máli hvar þú ert á lista því við gerum þetta saman.

Umhverfismál, innviðir og starfsfólk bæjarins eru mér ofarlega í þessum kosningum. Fjárfestum í framtíðinni.

Hver er fallegasti staðurinn á Íslandi?

Klárlega Grindavík og Jökulfirðir fyrir vestan.

Er eitthvað lítilvægt sem fer þó í taugarnar á þér í þínu sveitarfélagi sem þú vilt að sé lagað?

Umhverfismál – við þurfum að fara gera þeim betur skil og taka fastari tökum á þeim.

Hvert er þitt uppáhalds áhugamál sem gæti þótt skrítið?

Helga, foreldrar hennar og systur.

Ég horfi stundum á Alþingi í beinni, sérstaklega ef það eru einhverjar umræður um mál sem mér finnst áhugaverð. Það er víst talið skrítið af sumu fólki í kringum mig.

Hver eru þín minnistæðustu samskipti við lögregluna?

Ég var 18 eða 19 ára minnir mig og það var sjómannadagsball í bænum. Ég var ekki að drekka og ákvað að leggja bílnum langt í burtu því ég vildi ekki hafa hann á stæðinu fyrir utan. Það þótti mjög grunsamlegt þegar það átti að fara heim.

Löggan elti mig og bað mig um að koma inn og blása. Þegar í lögreglubílinn var komið þá virkaði ekki tækið. Þeir sáu greinilega að ég var edrú og slepptu mér. Ég rökræddi við þá í nokkurn tíma og bauðst til þess að koma niður á stöð þar sem ég ætlaði svo sannarlega að sýna að ég væri edrú. Þannig þetta snerist við og þeir þurftu að sannfæra mig um að þeir sæu og trúðu algjörlega að ég væri edrú.

Hvað færðu þér á pizzu?

Hawaii – skinku og ananas.

Hvaða lag peppar þig mest?

Come and get your love – Redbone.

Hvað getur þú tekið margar armbeygjur?

Ég hef nú ekki talið og vil það helst ekki því þær eru frekar fáar.

Göngutúr eða skokk?

Allan daginn göngutúr. Það er ekkert betra en að fara í góða fjallgöngu eða góðan göngutúr úti í náttúrunni.

Uppáhalds brandari?

Það eru margir og mjög erfitt að velja úr, ég hlæ vandræðalega mikið af fimmaurabrandörum.

Hvað er þitt draumafríi?

Í desember árið 2019 fór ég í draumafríið mitt. Þá fór ég í yogaferð til Balí. Fríið var algjör draumur og stefnan er að fara aftur einhvern tímann seinna. Annars er fátt betra en að vera í góðra vinahópi í sumarbústað eða útilegu út á landi, ekta íslenskt sumar.

Hvort fannst þér 2020 eða 2021 vera verra ár?

Þau höfuð bæði sína kosti og áskoranir.

Uppáhalds tónlistarmaður?

Friðrik Dór.

Hvað er það skrýtnasta sem þú manst eftir að hafa gert?

Matreiðslunámskeið heima hjá konu í Nigaragua þegar ég fór í bakpokaferðalag um Mið-Ameríku.

Ef það væri gerð kvikmynd um ævi þína, hver ætti að leika þig? Má vera íslenskur eða útlenskur.

Edda Björgvins.

Hefur þú verið í verbúð?

Ég hef ekki verið í verðbúð en eftir menntaskóla fór ég til Vestmanneyja í loðnuvertíð. Það var frábær tími. Hefði alveg verið til í að verðbúðarmenningin hefði verið þá við líði.

Áhrifamesta kvikmyndin?

The shawshank redemption og Coach Carter – það er eitthvað við þessar myndir.

Áttu eftir að sakna Nágranna?

Viðurkenni að ég held að ég hafi aldrei náð að horfa á heilan þátt af nágrönnum. Þannig svarið er nei.

Ef þú yrðir að flytja úr þínu sveitarfélagi, hvert myndir þú helst vilja fara?

Ég held að Akureyri yrði fyrir valinu. Ég fór í Menntaskólann á Akureyri og bjó á heimavist þar í 4 ár. Ótrúlega góður tími og margir af mínum bestu vinum búa þar.

Uppáhalds „guilty pleasure“ lag? (skammast þín smá fyrir að hafa gaman af því – sakbitin sæla)

Franskar (sósa og salat) með Stuðmönnum. Ég skammast mín reyndar ekkert fyrir það því það er geggjað lag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×