Handbolti

Selfyssingar hafa ekki tapað á Hlíðarenda í 133 mánuði

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Valsmaðurinn Einar Þorsteinn Ólafsson sækir að vörn Selfyssinga í síðasta leik liðann á Hlíðarenda.
Valsmaðurinn Einar Þorsteinn Ólafsson sækir að vörn Selfyssinga í síðasta leik liðann á Hlíðarenda. Vísir/Elín Björg

Valur og Selfoss hefja í kvöld undanúrslitaeinvígi sitt í úrslitakeppni Olís-deildar karla í handbolta á Hlíðarenda en gestirnir frá Selfossi hafa fundið sig einstaklega vel undir Öskjuhlíðinni undanfarin áratug.

Selfossliðið vann Valsmenn á Hlíðarenda fyrr í vetur en steinlá aftur með tólf mörkum á móti Val á heimavelli sínum í apríl.

Þetta hefur svolítið verið þróun mála síðustu ár. Selfoss vinnur á Hlíðarenda en Valsmenn standa sig miklu betur á Selfossi.

Valsmenn hafa þannig ekki unnið Selfoss á heimavelli sínum á Íslandsmótinu í 133 mánuði eða síðan 31. mars 2011. Valsliðið vann þá 25-19 sigur. Síðan eru liðnir ellefu ár einn mánuður og tveir dagar.

Síðan þá hafa Selfyssingar mætt sjö sinnum á Hlíðarenda, sex sinnum fagnað sigri og einu sinni gert jafntefli.

Einn af þessum sigurleikjum var þegar Selfoss sópaði Val út úr undanúrslitunum vorið 2019 en þá fóru Selfyssingar alla leið og urðu Íslandsmeistarar í fyrsta og eina skiptið.

Ef við skoðum söguna þá er þetta kannski dæmi um öfugan heimavallarrétt. Valsmenn eru vissulega með hann í þessu einvígi en þeir hafa ekki unnið Selfoss á heimavelli í meira en ellefu ár. Þeir eru aftur á móti búnir að vinna þrjá síðustu leiki sína á Selfossi.

Leikur Vals og Selfoss hefst klukkan 19.30 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport. Upphitun Seinni bylgjunnar hefst klukkan 19.00 og Seinni bylgjan gerir síðan upp leikinn eftir hann.

  • Síðustu átta leikir Selfyssinga á Hlíðarenda:
  • 4. desember 2021: Selfoss vann með tveimur mörkum (28-26)
  • 3. febrúar 2021: Selfoss vann með sex mörkum (30-24)
  • 21. september 2019: Jafntefli (27-27)
  • 3. maí 2019: Selfoss vann með einu marki (32-31)
  • 25. febrúar 2019: Selfoss vann með einu marki (26-25)
  • 31. janúar 2018: Selfoss vann með fimm mörkum (34-29)
  • 16. september 2016: Selfoss vann með þrettán mörkum (36-23)
  • 31. mars 2011: Valur vann með sex mörkum (25-19)



Fleiri fréttir

Sjá meira


×