Skoðun

Tekst að kæla heitasta markað landsins?

Halldór Kári Sigurðarson skrifar

Húsnæðisverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 3,1% í mars sem er næstum því fjórföld hækkun m.v. meðalmánuðinn undanfarin 7 ár. Þrátt fyrir það lækkar árshækkunartakturinn aðeins, þ.e. úr 22,5% í 22,2% en það skýrist af því að húsnæðisverð hækkaði enn þá meira í mars í fyrra. Það er skörp áminning um hve lengi þessi seljendamarkaður hefur varað.

Heimildir: Þjóðskrá Íslands og Greiningardeild Húsaskjóls

Aprílmæling Hagstofu Íslands leiddi í ljós að verðbólgan er komin upp í 7,2% en næsta vaxtaákvörðun Seðlabanka Íslands er núna á miðvikudaginn 4. maí. Sennilegt er að peningastefnunefnd sjái sig tilneydda til að hækka stýrivexti um 1%, eða upp í 3,75%, til að viðhalda trúverðugleika á verðbólgumarkmiðinu.

Hækkandi vaxtastig mun hafa þó nokkur neikvæð áhrif á getu kaupenda til skuldsetningar og að sama skapi mun greiðslubyrði heimila með óverðtryggð jafngreiðslulán með breytilegum vöxtum hækka um 11-13% m.v. 30-40 ára lán ef lánveitendur velta stýrivaxtahækkuninni að fullu leyti út í vaxtakjörin.

Heimildir: Greiningardeild Húsaskjóls

Breytilegir vextir á óverðtryggðum lánum fóru hvað lægst niður í kringum 3,5% en gætu vel verið komnir upp í kringum 6% á næstu mánuðum. Það þýðir að greiðslubyrði á 30-40 ára óverðtryggðum jafngreiðslulánum á breytilegum vöxtum hefur þá vaxið um 33-42% á tæplega einu og hálfu ári. Það mun að sjálfsögðu kæla markaðinn.

Við það bætist að talning Samtaka iðnaðarins sýnir fram á að aukið framboð á íbúðum er framundan. Tvöfalt fleiri íbúðir eru á fyrri byggingarstigum en fyrir ári síðan og Samtök iðnaðarins spá því að rúmlega 2.200 nýjar íbúðir komi inn á markaðinn á höfuðborgarsvæðinu á næsta ári sem er tæplega 40% vöxtur m.v. áætlanir fyrir árið í ár.

Heimildir: Samtök iðnaðarins og Greiningardeild Húsaskjóls

Horft fram á við má vænta þess að draga taki úr krafti verðhækkana á næstum mánuðum og að árshækkunartakturinn fari lækkandi. Stökkbreyting á vaxtakostnaði lántakenda ofan í aukið framboð er til þess fallið að draga heitasta markað landsins niður á jörðina. Undirritaður væntir þess þ.a.l. að framundan sé ákveðinn vendipunktur á húsnæðismarkaði og að markaðurinn stefni í meira jafnvægi með haustinu.

Höfundur er hagfræðingur Húsaskjóls fasteignasölu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×