Innlent

Styrkja tengslin við Ísland og ræða aðild að NATO í ljósi stríðsins

Fanndís Birna Logadóttir skrifar
Nikoloz Samkharadze, formaður utanríkismálanefndar þingsins í Georgíu.
Nikoloz Samkharadze, formaður utanríkismálanefndar þingsins í Georgíu. Vísir/Ívar

Georgísk sendinefnd er nú stödd á hér á landi til að styrkja tengslin milli landanna og ræða aðild Georgíu að Atlantshafsbandalaginu. Formaður utanríkismálanefndar þingsins þar í landi segir það mikilvægt, ekki síst í ljósi stöðunnar í Úkraínu.

Þetta er í fyrsta sinn sem sendinefnd frá Georgíu kemur til Íslands en koma nefndarinnar markar 30 ára afmæli stjórnmálasambands landanna. Nýskipaður sendiherra Georgíu á Íslandi er með í för og stendur til að opna ræðismannaskrifstofu hér á landi á morgun. 

„Meginmarkmið heimsóknar okkar er að efla samband milli landanna tveggja. Þótt löndin séu aðskilin landfræðilega hvort í sínum hluta Evrópu, þá eigum við margt sameiginlegt hvað hagsmuni varðar,“ segir Nikoloz Samkharadze, formaður utanríkismálanefndar georgíska þingsins.

Hann segir að um sögulega heimsókn sé að ræða en annað markmið með heimsókninni er að ræða aðild Georgíu að Nato.

„Við höfum ætíð fundið fyrir stuðningi Íslands við sjálfstæði og landamærahelgi Georgíu og við vonum að Ísland styðji umsókn okkar um aðild að NATO,“ segir hann.

Þá sé innganga Georgíu í NATO sérstaklega mikilvæg á þessum tímapunkti í ljósi stríðsins í Úkraínu. Georgíumenn hafa einnig reynslu af innrásarhernum en Rússar réðust inn í Georgíu árið 2008.

„Við stöndum þétt með Úkraínu og skiljum og finnum fyrir þjáningum þeirra og sorg,“ segir Nikoloz og bætir við að Georgía hafi verið hvað fremst í flokki hvað varðar stuðning til Úkraínu.

Hann segir að með aðild að NATO gæti Georgía aðstoðað önnur ríki við að bregðast við þeim brögðum sem Rússar eru þekktir fyrir að beita. Engan tíma megi nú missa þar sem ljóst er að Rússar muni ekki virða lög eða reglur alþjóðasamfélagsins.

„Komist Rússar upp með þetta eins og þeir gerðu árið 2008, þegar þeir lögðu undir sig hluta af Georgíu, mun það grafa undan öryggi gervallrar Evrópu. Þá gæti Georgía aftur orðið skotmark Rússa í hernaðarstefnu sinni og yfirgangi. Því er mjög mikilvægt að NATO og Vesturlönd standi saman gegn þessum yfirgangi,“ segir hann.


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.