Körfubolti

Búast við því að Jokic fái stærsta samning sögunnar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nikola Jokic var efstur í öllum helstu tölfræðiþáttum hjá Denver Nuggets liðinu á þessu tímabili.
Nikola Jokic var efstur í öllum helstu tölfræðiþáttum hjá Denver Nuggets liðinu á þessu tímabili. Getty/AAron Ontiveroz

Nikola Jokic er líklegur til að verða kosinn mikilvægasti leikmaður NBA-deildarinnar í körfubolta annað árið í röð en er einnig að skrifa undir sögulegan samning við Denver Nuggets.

Denver Nuggets er komið í sumarfrí eftir 4-1 tap á móti Golden State Warriors í fyrstu umferð úrslitakeppninnar en það dugði ekki liðinu að Jokic var með 30 stig, 19 fráköst og 8 stoðsendingar í lokaleiknum.

Jokic hefur nú rétt að fá svokallaðan súpersamning og það er búist við því að Denver Nuggets bjóði honum 245 milljónir dollara fyrir fimm ára samning.

Það gera 32 milljarðar í íslenskum krónum og kappinn væri því að fá rúmar 533 milljónir íslenskra króna í laun á mánuði þessi fimm ár. Þetta yrði stærsti samningur sögunnar.

Jokic talaði um það eftir síðasta leik tímabilsins að honum líkaði vel í Denver og myndi skrifa undir slíkan samning. Það er því fátt sem kemur í veg fyrir að þessi 27 ára gamli Serbi verði launahæsti leikmaður NBA-deildarinnar.

Jokic varð í vetur fyrsti leikmaðurinn í sögunni með að lágmarki tvö þúsund stig, þúsund fráköst og fimm stoðsendingar á einu tímabili. Hann varð líka sá fyrsti með 25 stig, 13 fráköst og 7 stoðsendingar að meðaltali í leik.

Jokic skrifaði einnig söguna með því að vera sá fyrsti frá 1973-74 til að leiða liðið sitt í stigum, fráköstum, stoðsendingum, stolnum boltum, vörðum skotum og skotnýtingu.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×