Skoðun

Í þjónustu fyrir Garða­bæ

Björg Fenger skrifar

Garðabær er ört stækkandi sveitarfélag og mörg spennandi og mikilvæg verkefni bíða þeirra sem munu sitja við stjórnvölinn næstu árin. Við sem skipum lista Sjálfstæðisflokksins fyrir sveitarstjórnarkosningarnar þann 14. maí næstkomandi bjóðum fram krafta okkar, þekkingu og reynslu til að vinna að því að Garðabær haldi áfram að vera bæjarfélag í fremstu röð.

Við teljum mikilvægt að viðhalda þeim fjárhagslega stöðugleika sem hefur verið byggður upp í bænum síðustu áratugi undir forystu Sjálfstæðisflokksins. Slíkur stöðugleiki er grundvöllur þess að hægt sé að veita góða þjónustu. Við höfum jafnframt skýra framtíðarsýn og viljum halda áfram að nútímavæða þjónustu sveitarfélagsins, meðal annars með stafrænum lausnum.

Mótum framtíðina saman fyrir Garðabæ

Okkur frambjóðendum Sjálfstæðisflokksins finnst mikilvægt að móta framtíð sveitarfélagsins með íbúum þess enda þekkja þeir best sitt nærumhverfi. Við höfum því á undanförnum vikum haldið opna fundi þar sem íbúum hefur gefist kostur á að koma áherslum sínum á framfæri ásamt ábendingum um það sem íbúar eru ánægðir með og hvað megi gera betur. Slíkt samtal teljum við mikilvægt.

Þessi vinnubrögð ríma vel við lýðræðisstefnu Garðabæjar og verkefnið „Betri Garðabær“ sem er samráðsverkefni íbúa og stjórnsýslu um forgangsröðun og úthlutun fjármagns til smærri framkvæmda í nærumhverfi íbúa. Garðabær hefur einnig hafið innleiðingu á verkefninu barnvænt sveitarfélag sem snýr meðal annars að því að börn og ungmenni séu höfð með í ráðum varðandi nærumhverfi sitt og þá þjónustu sem þeim stendur til boða. Við frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins viljum halda áfram að þróa með íbúum framangreind verkefni.

Stafrænar lausnir fyrir Garðabæ

Undanfarin ár hefur tækniþróun verið hröð og vilja nú flestir nálgast þjónustu og upplýsingar frá bæjarfélaginu á einfaldan og auðveldan hátt. Til að halda í við slíka þróun er mikilvægt að sveitarfélögin í landinu vinni saman og nýti sameiginlega þekkingu og mannafla. Dæmi um nýjar tæknilausnir eru rafræn sundkort sem tekin voru í notkun í almenningssundlaugum Garðabæjar um síðustu mánaðarmót. Um þróunarverkefni er að ræða sem leitt er af Garðabæ sem er fyrsta bæjarfélagið til að bjóða upp á slík kort. Við frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins viljum halda áfram á braut tækninnar. Með stafrænum lausnum má einfalda og auðvelda íbúum Garðarbæjar samskipti við bæinn sinn og aðgang að mikilvægum upplýsingum.

Til starfa fyrir Garðabæ

Það fylgir því mikil ábyrgð að bjóða sig fram og vilja stýra bæjarfélagi eins og Garðabæ. Það er ábyrgð sem við frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins tökum mjög alvarlega. Við viljum halda áfram að vinna af fullum krafti í þágu Garðbæinga og óskum við því eftir stuðningi ykkar í sveitastjórnarkosningunum þann 14. maí næstkomandi. Setjið X við D.

Höfundur er forseti bæjarstjórnar Garðabæjar, skipar 2. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í komandi sveitarstjórnarkosningum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×