Viðskipti innlent

„Gæti verið ó­heppi­legt að selj­endur í út­boðinu hafi líka keypt“

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir og Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifa
Lárus L. Blöndal formaður Bankasýslu ríkisins.
Lárus L. Blöndal formaður Bankasýslu ríkisins. Vísir/Einar

Góðkunningjar úr bankahruninu eru aftur komnir á kreik og keyptu nokkrir þeirra fyrir hundruð milljóna í útboði Íslandsbanka á dögunum. Starfsmenn og eigendur fyrirtækja sem sáu um sölu bankans í útboðinu keyptu einnig hluti. Formaður Bankasýslunnar segir það geta verið óheppilegt.

Sala á fjórðungshlut í Íslandsbanka í síðasta mánuði hefur verið harðlega gagnrýnd eftir að í ljós kom að fjárfestar fengu fjögurra prósenta afslátt af söluverðinu í lokuðu útboði. Bankasýslan hefur á móti bent á að það sé minni afsláttur en í sambærilegum útboðum.

Fjármálaráðuneytið birti í gær lista í trássi við Bankasýsluna yfir þá fjárfesta sem fengu að kaupa í útboðinu. Alls bárust 430 pantanir í útboðinu frá 209 fjárfestum sem allir fengu úthlutað.

Þegar fjárfestalistinn er skoðaður kemur fram að stórir eigendur hrunbankanna Glitnis og Kaupþings og fyrirrennarar Íslandsbanka og Arion kaupa nú stóra hluti á ný. Þannig kaupa Bakkavararbræðurnir Ágúst og Lýður Guðmundssynir fyrir um 470 milljónir en þeir voru voru meðal stærstu eigenda Kaupþings fyrir hrun. Jón Ásgeir Jóhannesson athafnamaður og Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja sem áður áttu stóra hluti í Glitni kaupa nú fyrir hundruð milljóna króna. 

Kristján Jónsson

Gagnrýnt hefur verið að þessir aðilar fái að kaupa þar sem þeir hafi verið dæmdir eða verið til rannsóknar vegna mála sem tengjast bankahruninu og eða öðrum málum.

Alþingi þarf að setja lög vilji það að orðsporið skipti máli

Lárus L. Blöndal formaður Bankasýslu ríkisins segir að engar kröfur hafi verið gerðar um orðspor, traust eða fyrri störf við söluna nú. Orðsporsáhætta er hins vegar metin hjá Fjármálaeftirlitinu fari hlutur einstaks hluthafa yfir 10% sem gerðist ekki í þessum tilvikum.

„Það er þannig í lögunum eins og þau eru þá er gert ráð fyrir því að þegar virkir eigendur verða að bönkunum, sem þýðir að menn eigi tíu prósent eða meira, þá eru gerðar mjög strangar kröfur. Það eru ekki gerðar kröfur til minni hluthafa með sama hætti og það er auðvitað mat löggjafans og við í sjálfu sér getum ekki haft áhrif á það hvernig þau lög eru,“ segir Lárus.

Hann segist sjálfur þeirrar skoðunar að ekki væri eðlilegt ef sömu kröfur væru gerðar til minni hluthafa.

„Að mínu mati er ekkert eðlilegt heldur þegar menn kaupa hlutabréf á markaði eða í svona útboðum í svona smáum stíl að þeir þurfi að uppfylla þannig kröfur, eins og gerðar eru til virkra eigenda sem fara með yfir tíu prósenta eignahlut.“

„Það er ljóst að minnsta kosti að það er ákveðin stemning í þessa átt sem maður heyrir í dag en eftir sem áður við höfum engar forsendur til að bregðast þannig við. Við förum að lögum og það er ekkert í lögum sem að mismuna kaupendum á þessum grundvelli. Alþingi þarf sjálft að setja lög vilji það útiloka fjárfesta á forsendum orðspors viðkomandi,“ segir Lárus.

Gagnrýnt hefur verið að Bankasýslan fékk átta sölu-eða umsjónaraðila með útboðinu án þess að fara í sérstakt útboð á ný en þetta eru sömu aðilar og sáum um fyrra útboðið. En alls kostaði umsjónin nú 700 milljónir króna. Lárus segir það ekki of dýrt.

„Nei, ég held að það sé einhver misskilningur með það að það hefði verið hægt að gera þetta mun ódýrari hætti. Þetta er, miðað við útboðið í fyrra, töluvert innan við helmingur miðað við það sem það kostaði og þetta er í samræmi við áætlun og samkvæmt mínum upplýsingum um hvernig þessi heimur virkar þá eru þetta eðlilegar þóknanir í samræmi við þessa miklu sölu sem er yfir fimmtíu milljarðar.“

Sátu beggja vegna borðsins

Íslensk verðbréf eru meðal þeirra fimm fyrirtækja sem sáu um að selja hlut ríkisins. Þorbjörg Stefánsdóttir eiginkona framkvæmdastjóra Íslenskra verðbréfa á helmingshlut í fyritækinu. Hún keypti fyrir 22,5 milljónir í gegnum félag sitt Björg Finance. Þá keypti Íslensk verðbréf í útboðinu fyrir yfir hundrað milljónir króna í gegnum félagið ÍV-eignastýring.

Umsjónaraðili með útboðinu á Íslandsbanka var meðal annars fyrirtækjaráðgjöf og verðbréfamiðlun bankans.

Þegar listi yfir kaupendur er skoðaður kemur í ljós að Geir Oddur Ólafsson starfsmaður verðbréfamiðlunar bankans sem sá þá um útboðið keypti í bankanum fyrir rúma milljón. Brynjólfur Stefánsson sjóðsstjóri Íslandssjóða keypti fyrir fjórar komma milljónir króna. Íslandsbanki tilkynnti hins vegar ekki að þessir aðilar væru innherjar í útboðinu og segir í svari til fréttastofu að þeir séu ekki innherjar. Lárus segir þetta geta verið óheppilegt. 

Kristján Jónsson

„Það gæti verið óheppilegt að seljendur í útboðinu hafi líka keypt en út frá þessum upplýsingum get ég ekki sagt að það hafi verið ólögmætt eða ekki heimilt,“ segir hann.

„Þegar útboðið hefst eru engar innherjaupplýsingar til staðar þannig að þá eru menn bara að kaupa. Ef menn uppfylla skilyrðin um það að vera hæfur kaupandi að mati viðkomandi fjármálafyrirtækis þá sé ég ekki að þetta sé eitthvað sem við getum gert athugasemdir við.“

Ánægður með að Ríkisendurskoðun kanni málið

Aðrir kaupendur sem teljast hæfari en hinn almenni hluthafi er Guðbjörg Matthíasdóttir eigandi Ísfélags Vestmannaeyja og Jakob Valgeir Flosason sem var rannsakaður í tengslum við STÍM- málið svokallaða en hann fékk milljarða í lán hjá Glitni til að kaupa í bankanum fyrir efnahagshrunið.

Benedikt Sveinsson faðir Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra en Bjarni hefur sagst ekki hafa vitað af málinu. Þá er hægt að nefna að meðal fleiri hæfra fjárfesta er Björn Bragi Arnarson fjölmiðlamaður.

Kristján Jónsson

Ákveðið hefur verið að Ríkisendurskoðun fari yfir söluna. Lárus segir Bankasýsluna hafa farið að lögum en fagnar þessu,

„Ég er bara ánægður með það miðað við þá gagnrýni sem hefur komið frá stjórnarandstöðunni,“ segir Lárus.

„Við hjá Bankasýslunni teljum okkur hafa gert þetta eins vel og við gátum. Við höfum farið eftir þeim áformum sem við höfum kynnt bæði fyrir Alþingi, Seðlabanka og fleirum. Þannig að ég lít svo á að við höfum gengið til verks með eðlilegum hætti og fullnægjandi hætti og reyndar að útboðið hafi tekist vel.“

Telur að breyta þyrfti lögum ef næsta útboði ætti að haga öðruvísi

Enn á eftir að selja 42,5 prósenta hlut ríkisins í bankanum og áætlað er að búið verði að selja allan hlut ríkisins fyrir árið 2023. Lárus segir ekki að því útboði verði hagað öðru vísi nema lögum verði breytt.

„Ekki án þess að það sé heimild til þess í lögum. Það er töluvert mikið inngrip ef lög verða sett á þann veg að það sé heimilt að mismuna mönnum á grundvelli tiltölulega óljósra atvika eða ienhvers í fortíð einhver manns,“ segir Lárus.

En er þetta ferli ekki mismunun í sjálfu sér þar sem aðeins fagfjárfestum er boðið að því?

„Þetta útboð er aðferðafræði eða algengasta framhald eftir frumútboð, sem við vorum með í fyrrasumar, og í raun og veru er það þannig með þessa aðferð að það fer fram í miklu styttra ferli þar sem það eru eingöngu fagfjárfestar sem eiga að hafa þekkingu til að leggja mat á fyrirtæki eða útboðsandlagið án þess að þurfa að fá mjög ítarlegar skýringar,“ segir Lárus.

„Þess vegna er þetta valið og þess vegna er hægt að gera þetta svona hratt. Það er í sjálfu sér ekki mismunun heldur bara útboðsfyrirkomulagið gerir ráð fyrir því að viðkomandi þátttakendur séu fagfjárfestar, séu hæfir fjárfestar og viti hvað þeir eru að gera. Þess vegna þarf ekki að gefa út ítarlegar skýringar og upplýsingar um fyrirtækið samhliða útboðinu.“

Athugasemdir hafa borist frá kaupendum vegna nafnbirtingarinnar

Hann nefnir að Bankasýslan sendi inn tillögu til ráðuneytisins, sem ráðherra geri greinargerð um á grundvelli upplýsinga frá Bankasýslunni og kynni fyrir Alþingi og Seðlabanka. Bankasýslan sjálf kynni tillöguna fyrir nefndum Alþingis og fagni því að fá athugasemdir.

„Ég held að til dæmis eitt sem kemur í ljós núna í þessari umferð, þá er mikill þrýstingur á það að upplýsingarnar séu gerðar opinberar um það hver keypti og hvað mikið. Við erum hins vegar bara að fara eftir reglunum eins og þær eru og samkvæmt þeim og þeirri ráðgjöf sem við höfum fengið bæði frá lögfræðistofum og ráðgjöfum okkar þá segja menn að okkur sé ekki heimilt að birta þessar upplýsingar og þar með var það niðurstaða okkar,“ segir Lárus.

Ástæða þess að Bankasýslan taldi sig ekki hafa heimild fyrir því að birta upplýsingarnar er sú að hluthafarnir hafi ekki gefið heimild fyrir því að upplýsingar þeirra yrðu opinberaðar.

„Maður myndi halda að í næstu umferð myndi maður skoða það og ræða það alvarlega við stjórnvöld hvort við ættum ekki að setja inn fyrirvara í næsta útboð að það verði veittar upplýsingar um söluna eftir útboðið,“ segir Lárus.

Hann segir að söluaðilum hafi borist nokkrar athugasemdir frá kaupendum um að nöfn þeirra hafi verið birt en þær séu ekki margar.


Tengdar fréttir

Hluthafar Íslandsbanka koma úr ólíkum áttum

Björn Bragi Arnarson, sjónvarpsmaður og grínisti, er á meðal þeirra fjárfesta sem fengu boð um að kaupa í Íslandsbanka. Björn Bragi keypti fyrir sautján og hálfa milljón króna í Íslandsbanka í gegnum félag sitt Bananalýðveldið. Hann er einn af fjölmörgum sem keyptu hlut í bankanum í nýafstöðunu útboði.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.