Innherji

Vill selja yfir 15 prósenta hlut í Íslandsbanka í næsta áfanga

Hörður Ægisson skrifar
Markaðsvirði Íslandsbanka hefur hækkað um meira en 60 prósent frá skráningu á markað í júní í fyrra og er í dag tæplega 260 milljarðar króna.
Markaðsvirði Íslandsbanka hefur hækkað um meira en 60 prósent frá skráningu á markað í júní í fyrra og er í dag tæplega 260 milljarðar króna. Vísir/Vilhelm

Bankasýsla ríkisins, sem heldur utan um eftirstandandi 65 prósenta eignarhlut ríkissjóðs í Íslandsbanka, mun stefna að því að selja að lágmarki svo stóran hlut í næsta áfanga söluferlisins á komandi vikum að eignarhald íslenska ríkisins fari niður fyrir helmingshlut í bankanum, samkvæmt heimildum Innherja.

Það þýðir að ríkissjóður þyrfti að selja rétt rúmlega 15 prósenta hlut en sé litið til hlutabréfaverðs Íslandsbanka í dag, sem hefur hækkað um meira en 60 prósent frá skráningu bankans á markað í júní í fyrra, er slíkur eignarhlutur metinn á tæplega 40 milljarða króna.

Ef markaðsaðstæður reynast hagfelldar og áhugi verði fjárfesta verður mikill þykir hins vegar líklegt að enn stærri hlutur verði seldur, mögulega sem nemur liðlega 20 prósenta hlut, en hann er metinn á um 52 milljarða miðað við núverandi markaðsvirði Íslandsbanka.

Ljóst er að fjárfestar eru áfram um að ríkissjóður fari ekki með meirihluta í Íslandsbanka eftir að næsta skref í söluferlinu verður tekið og horfa þá samhliða því til mögulegra breytinga á stjórn bankans. Í krafti 65 prósenta eignarhlutar hefur Bankasýslan rétt á að tilnefna 5 af 7 stjórnarmönnum Íslandsbanka en næsti aðalfundur fer fram 17. mars næstkomandi og fyrirsjáanlegt er að talsverð uppstokkun verði þá á stjórn bankans.

Á föstudaginn síðasta tilkynnti Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, að hann hefði fallist á tillögu Bankasýslunnar um að stofnunin hefji undirbúning hið fyrsta að framhaldi á sölumeðferð á eftirstandandi eignarhlutum ríkisins í Íslandsbanka innan næstu tveggja ára, háð því að markaðsaðstæður séu hagfelldar. Áætlað er að salan verði í nokkrum áföngum á því tímabili en í forsendum fjárlagafrumvarps ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir því að selja helminginn af 65 prósenta hlutnum í Íslandsbanka á þessu ári.

Fjármálaráðherra hefur óskað eftir umfjöllun og athugasemdum frá fjárlaganefnd, efnahags- og viðskiptanefnd ásamt áliti Seðlabanka Íslands um framhald á söluferlinu sem þarf að berast eigi síðar en 2. mars næstkomandi.

Sala með tilboðsfyrirkomulagi til hæfra fjárfesta

Í greinargerð ráðherra með tillögu sinni að halda áfram með sölu ríkissjóðs á hlutum í Íslandsbanka kemur fram að Bankasýslan horfi til þess að næsti áfangi sölumeðferðar fari með svonefndu tilboðsfyrirkomulagi (e. accelerated bookbuild). Slík leið er lang algengasta aðferðin sem ráðandi hluthafar nýta sér við sölu á stórum hlutum í skráðum félögum á evrópskum hlutabréfamarkaði.

Sala með tilboðsfyrirkomulagi fer fram með þeim hætti að söluráðgjafar kanna áhuga hæfra fjárfesta á einum eða tveimur dögum og afla þannig upplýsinga um vilja þeirra til að taka þátt í útboði, með svipuðu fyrirkomulagi og var gert í frumútboði Íslandsbanka. Á grundvelli þessara upplýsinga er svo tekin ákvörðun um hvort að ráðist verði í útboð og hversu stór hlutur verði seldur. Sú ákvörðun yrði tekin eftir lokun markaða og ákvarðast útboðsverð af lokaverði þess dags.

Niðurstöður úthlutunar þurfa að liggja fyrir áður en markaðir opna daginn eftir og því gefst lítill tími til að ákveða nákvæma úthlutun. Verð er ákveðið með hliðsjón af lokaverði útboðsdags og er þá veittur lítilsháttar afsláttur af því.

„Ástæða þess er sú að verið er að auka framboð bréfa á markaði og óska eftir því að hæfir fagfjárfestar kaupi stærri hlut, þar sem óvissa er um nákvæma þróun dagslokagengis næstu vikur á eftir. Með þessu fyrirkomulagi er einnig verið að selja magn hlutabréfa sem nemur margra vikna viðskiptum á markaði og því er mögulegt að slík sala gæti haft áhrif á markaðsverð til skamms tíma,“ segir í greinargerð fjármálaráðherra.

Þá er einnig nefnt að líklegt sé að söguleg verðþróun hlutabréfa Íslandsbanka, þ.e. sveiflur á gengi bréfanna, verði höfð til hliðsjónar við mat á því hvað getur talist hæfilegur afsláttur frá dagslokagengi. Þegar tilboðsfyrirkomulag er viðhaft er afsláttur venjulega talsvert lægri en í frumútboði, þar sem markaðsverð liggur ekki fyrir.

Að mati Bankasýslunnar bendir allt til þess að ásættanleg skilyrði séu fyrir frekari sölu á hlutum ríkissjóðs í Íslandsbanka með hliðsjón af núverandi markaðsaðstæðum, ekki síst ef horft er til þróunar hlutabréfa hérlendis almennt og þróunar hlutabréfa í evrópskum bönkum. Arðsemi Íslandsbanka hefur hækkað og virðast markaðir horfa til þeirrar þróunar við mat á markaðsvirði hans sem og annarra banka á markaði.

Heimild: Greinargerð fjármála- og efnahagsráðherra vegna framhalds á sölu á hlutum ríkisins í Íslandsbanka.

Þá hefur arðsemi Íslandsbanka farið stigbatnandi frá því um mitt árið 2020. Á síðustu þremur ársfjórðungum hefur arðsemi eigin fjár verið heldur hærri en arðsemismarkmið bankans – sem er umfram 10 prósent – og á síðasta ári nam hún 12,3 prósentum þegar bankinn skilaði 23,7 milljörðum króna í hagnað. Batnandi arðsemi hefur meðal annars komið til vegna jákvæðrar þróunar á útlánum bankans, bæði hvað varðar útlánavöxt og virðisbreytingar, aukningu í þóknunartekjum og lækkun kostnaðarhlutfalls.

Stjórn Íslandsbanka mun leggja til 11,9 milljarða króna arðgreiðslu við aðalfund bankans sem er í samræmi við arðgreiðslustefnu hans. Þá er stefnt að því að greiða út umfram eigið, sem er metið á um 40 milljarða að frádreginni arðgreiðslu, á næstu 12 til 24 mánuðum. Mun stjórn bankans mæla fyrir kaupum á eigin bréfum að fjárhæð 15 milljarða króna á komandi mánuðum. Þrír kostir koma þar til greina og þeir eru endurkaupaáætlun, endurkaupatilboð eða þátttaka í hlutasölu.

Fyrir utan íslenska ríkið eru stærstu hluthafar Íslandsbanka í dag sjóðastýringarfyrirtækið Capital Group, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins, Lífeyrissjóður verslunarmanna og Gildi lífeyrissjóður.

Hluthafar voru um 24 þúsund talsins við skráningu í Kauphöllina en hefur síðan þá fækkað um liðlega átta þúsund.


Tengdar fréttir

Lífeyrissjóðir hafa bætt 6 prósentum við hlut sinn í Íslandsbanka

Lífeyrissjóðir hafa bætt töluvert við hlut sinn í Íslandsbanka frá hlutafjárútboði bankans í júní á síðasta ári en á sama tíma hefur hlutdeild erlendra fjárfesta í bankanum minnkað. Þetta má lesa úr skýrslu fjármálaráðherra um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í Íslandsbanka, sem var lögð fyrir Alþingi.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.