Skoðun

Þetta er ekki boð­legt

Ása Berglind Hjálmarsdóttir og Hrönn Guðmundsdóttir skrifa

Á fundi fjölskyldu- og fræðslunefndar Ölfuss sem haldinn var 7. apríl sl. voru m.a. teknar fyrir tillögur frá Sjálfstæðisflokki sem snúa að mótun stefnu sveitarfélagsins Ölfuss í málefnum eldri borgara, stöðu fólks með fötlun og hugmyndafræðilegum undirbúningi að nýjum leikskóla í Þorlákshöfn.

Allt eru þetta verkefni sem löngu eru tímabær og eðlilegt er að taka fyrir á þessum vettvangi en bara alls ekki á þessum tímapunkti þegar örfáir dagar eru til sveitarstjórnarkosninga. Í þessu sambandi má nefna að ætlun meirihluta Sjálfstæðisflokks er sú að drög að stefnu í öldrunarmálum í sveitarfélaginu verði tilbúin eigi síðar en 29. apríl n.k. en engin vinna hefur farið fram til þessa. Í fundargerðinni kemur fram að byrjað verði á nýjum leikskóla í Þorlákshöfn innan fárra vikna og það jafnframt opinberað að engin stefnumótandi vinna hafi farið fram vegna hans. Það er reyndar mjög sérstakt að ekki liggi margra mánaða, jafnvel ára vinna að baki þar sem Sjálfstæðisflokkurinn lýsti því yfir þegar Leikskólinn Bergheimar var einkavæddur að fulltrúar flokksins væru ekki sérfræðingar í rekstri leikskóla. Þá á einnig að keyra í gegn fyrir sveitarstjórnarkosningar stefnumótandi vinnu vegna málefna fatlaðs fólks í sveitarfélaginu.

Eins og fram kemur í bókun með tillögunum getur bæjarstjórn skipað nefndir til að vinna að afmörkuðum verkefnum en umboð slíkra nefnda fellur sjálfkrafa niður við lok kjörtímabils bæjarstjórnar. Næsti bæjarstjórnarfundur verður haldinn 28. apríl n.k. og fyrst að honum loknum gætu þessar nefndir mögulega tekið til starfa, rúmum tveimur vikum fyrir sveitarstjórnarkosningar.

Hinn eðlilegi farvegur er að ákvarðanir um aðgerðir og framkvæmdir séu teknar í kjölfar mótaðrar stefnu en ekki öfugt. Það er í besta falli vanmat á þessum verkefnum að ætla að hægt sé að móta stefnur á svo stuttum tíma í samráði og samtali við alla hagaðila.

Annað er að þessi ákvörðun á þessum tímapunkti felur í sér mikla vanvirðingu við það fólk sem nýtir þá þjónustu sem um ræðir og á skilið að vandað sé til verka sem og það fólk sem sæti hefur tekið á listum, öðrum en Sjálfstæðisflokks, fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar. Þá skýtur það einnig mjög skökku við að meirihluti Sjálfstæðisflokks hafi flotið stefnulaus allt þetta kjörtímabil í þessum stóru, viðkvæmu og mikilvægu málaflokkum. Hvernig stendur á því að tíminn hefur verið jafn illa nýttur sem raun ber vitni?

Vöndum vinnubrögðin, sýnum sanngirni og heiðarleika og vinnum saman að þessum framfaramálum eftir kosningar. Þetta er ekki boðlegt.

Ása Berglind Hjálmarsdóttir, oddviti H-lista í Ölfusi.

Hrönn Guðmundsdóttir, oddviti B-lista í Ölfusi.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Leikskólavandinn?

Hópur leikskólakennara og starfsfólks leikskóla í Reykjavík skrifar

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.