Björgvin Páll, sem spilar í dag í með Val í Olís-deild karla í handbolta, segist vilja nýja þjóðarhöll jafn mikið og næsti maður. Hins vegar ekki á kostnað heilbrigðiskerfisins.
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, ræddi þessi mál í Bítinu á Bylgjunni, núverið. Hann segir að þetta sé í réttum farveg og við ættum að sjá breytingar á næstu mánuðum eða misserum.
Björgvin Páll fagnar því eflaust en í færslu á Facebook-síðu sinni tók hann fram að við þyrftum líka að geta séð heiminn með augum annarra. Færsluna má sjá í heild sinni hér að neðan.
„Handboltakallinn ég væri rosalega til í að sjá nýja þjóðarhöll rísa. En við þurfum líka að sjá heiminn með augum annarra. Á tímum sem þessum spyr ég mig hvort það sé það mikilvægasta, horfandi á úrelt húsnæði geðdeilda, lélega þjónustu við aldraða og fatlaða og slæma geðheilsu barna og ungmenna.“
„Þó að eitt þurfi ekki að útiloka annað þá bið ég fólk að skoða hlutina útfrá réttri forgangsröðun. Ef að ákveðið verður að byggja nýja höll þá er ég klár að grípa í skóflu og hjálpa til svo að ég nái að spila í henni áður en ég hætti,“ skrifaði hann einnig. Fái handboltalandsliðin ekki undanþágu áfram hefur því verið velt upp hvar heimaleikir Íslands þyrftu að fara fram, þar sem Danmörk og Færeyjar hafa til að mynda verið nefnd til sögunnar.“
„En ef krónurnar eru ekki til þá er ég líka klár í að spila landsleiki næstu ára í Danmörku eða í Færeyjum ef að það verður til þess að heilbrigðiskerfið haldi velli.“
Björgvin Páll verður í eldlínunni þegar Valur tekur á móti Fram í átta liða úrslitum Olís-deildar karla í kvöld. Leikurinn hefst klukkan 19.30 og er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 4.
Olísdeildirnar í handbolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Olísdeildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði.