Körfubolti

Giannis dró vagninn er Milwaukee hóf titilvörnina á sigri

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Giannis Antetokounmpo skilaði tvöfaldri tvennu í nótt.
Giannis Antetokounmpo skilaði tvöfaldri tvennu í nótt. Stacy Revere/Getty Images

Giannis Antetokounmpo skilaði tvöfaldri tvennu í naumum sjö stiga sigri Milwaukee Bucks á Chicago Bulls í fyrsta leik liðanna í fyrstu umferð úrslitakeppni NBA-deildarinnar í körfubolta í nótt. Lokatölur 93-86.

Milwaukee liðið byrjaði af miklum krafti og leiddi með 13 stigum að loknum fyrsta leikhluta. Gestirnir frá Chicago unnu sig þó hægt og bítandi aftur inn í leikinn og voru búnir að minnka muninn niður í átta stig fyrir hálfleik, staðan 51-43 þegar gengið var til búningsherbergja.

Gestirnir héldu áfram að þjarma að heimamönnum í síðari hálfleik og tóku forystuna þegar um þrjár mínútur voru eftir af þriðja leikhluta. Þeir náðu mest fimm stiga forskoti, en Milwaukee liðið snéri leiknum sér í hag á ný og fór með þriggja stiga forskot inn í lokaleikhlutann. Þar reyndust heimamenn sterkari og Milwaukee-liðið fagnaði að lokum sjö stiga sigri, 93-86.

Giannis Antetokounmpo var allt í öllu í liði Milwaukee, en hann skilaði 27 stigum og tók 16 fráköst. Í liði gestanna var Nikola Vucevic atkvæðamestur með 24 stig og 17 fráköst.

Úrslit næturinnar

Atlanta Hawks 91-115 Miami Heat

Brooklyn Nets 114-115 Boston Celtics

Chicago Bulls 86-93 Milawaukee Bucks

New Orleans Pelicans 99-110 Phoenix Suns

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×