Körfubolti

Hawks og Pelicans eiga enn möguleika á sæti í úrslitakeppninni

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Trae Young átti góðan leik í liði Atlanta Hawks í nótt.
Trae Young átti góðan leik í liði Atlanta Hawks í nótt. Todd Kirkland/Getty Images

Atlanta Hawks og New Orleans Pelicans eiga enn möguleika á sæti í úrslitakeppni NBA-deildarinnar eftir að liðin sigruðu sína leiki í nótt. Atlanta vann 29 stiga sigur á Charlotte Hornets, 132-103, og New Orleans-liðið vann tíu stiga sigur á San Antonio Spurs, 113-103.

Atlanta Hawks hafði yfirhöndina gegn Charlotte Hornets í fyrsta leikhluta, en að honum loknum var staðan 32-23, Atlanta-liðinu í vil. Meira jafnræði var með liðunum í öðrum leikhluta og þegar gengið var til búningsherbergja hafði Atlanta átta stiga forskot, staðan 60-52.

Heimamenn í Atlanta tóku svo öll völd á vellinum í þriðja leikhluta og skoruðu 42 stig gegn 24 stigum gestanna. Það var því aðeins formsatriði fyrir þá að klára leikinn, en lokatölur urðu 132-103, Atlanta Hawks í vil.

Trae Young var atkvæðamestur í liði Atlanta með tvöfalda tvennu, en hann skoraði 24 stig og gaf 11 stoðsendingar. LaMelo Ball dró vagninn fyrir Charlotte og skoraði 26 stig.

Atlanta Hawks mætir Cleveland Cavaliers í nótt í úrslitaleik um sæti í úrslitakeppninni. Liðið sem hefur betur mætir svo Miami Heat í átta liða úrslitum Austurdeildarinnar.

Leikur New Orleans Pelicans og San Antonio Spurs bauð upp á örlítið meiri spennu, en lið New Orelans hafði þó yfirhöndina stærstan hluta leiksins. Þeir leiddu með 11 stigum þegar flautað var til hálfleiks og munurinn var svo kominn í 17 stig þegar komið var að lokaleikhlutanum.

Gestirnir í San Antonio Spurs náðu að klóra aðeins í bakkann, en það var of lítið og of seint og niðurstaðan varð tíu stiga sigur Pelicans, 113-103.

CJ McCollum var stigahæstur í liði Pelicans með 32 stig, en þar af skoraði hann 27 í fyrri hálfleik. Devin Vassell var atkvæðamestur í liði Spurs með 23 stig.

New Orleans Pelicans mætir því Los Angeles Clippers í nótt í úrslitaleik um seinasta lausa sætir í úrslitakeppni Vesturdeildarinnar. Sigurliðið mætir svo Phoenix Suns í átta liða úrslitum.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×