Innlent

Mögulegt að kvika sé að safnast fyrir undir yfirborðinu

Fanndís Birna Logadóttir skrifar
Enn sem komið er sést engin eldvirkni á yfirborðinu. 
Enn sem komið er sést engin eldvirkni á yfirborðinu.  Vísir/Vilhelm

Dregið hefur úr virkninni á Reykjanestá eftir að jarðskjálftahrina hófst þar í gærkvöldi. Rúmlega 600 skjálftar hafa mælst í hrinunni, sá stærsti 3,9 að stærð. Náttúruvársérfræðingur segir að kvika sé mögulega að safnast fyrir undir jarðskorpunni en ekkert bendir til að hún sé á leið upp á yfirborðið að svo stöddu.

Böðvar Sveinsson, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofunni, segir að það hafi hægst á skjálftavirkninni núna í morgunsárið og eru skjálftarnir minni.

„Það sést engin aflögun á yfirborði en þetta er svona tiltölulega djúpt, fimm til sjö kílómetra, sem sagt þensla á miklu dýpi og mjög neðarlega í skorpunni sem bendir til að það sé kannski einhver kvika að safnast fyrir. Það gæti verið byrjunin á einhverri innskotavirkni,“ segir Böðvar.

Hann segir þó virknina mjög neðarlega enn sem komið er og sést ekkert á GPS mælum á svæðinu. 

„Við fylgjumst náttúrulega grannt með, erum á tánum yfir þessu, en það alla vega bendir ekkert til að það sé neitt að gerast akkúrat núna,“ segir Böðvar.

Gera má ráð fyrir áframhaldandi skjálftavirkni

Af þeim rúmlega 600 skjálftum sem hafa mælst frá því í gær voru sjö yfir þremur að stærð, sá stærsti 3,9 að stærð. Aðspurður um hvort það hafi einhverja þýðingu hvað skjálftarnir eru stórir segir Böðvar svo ekki vera.

„Nei ekki þannig, það er reglulega skjálftavirkni þarna á þessu svæði þannig það er ekki óvanalegt að það sé eitthvað þarna í gangi,“ segir hann.

Þá megi gera ráð fyrir áframhaldandi skjálftavirkni næstu daga. „Það má nú alveg búast við því en ákefðin og stærðin hefur minnkað ansi mikið núna í morgun,“ segir Böðvar og bætir við að það sé ólíklegt að það komi upp eldvirkni á svæðinu.

„Við sjáum alla vega ekki neitt enn sem komið er en maður á aldrei að útiloka neitt.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×