Körfubolti

Danir náðu þessu loksins fjörutíu árum á eftir okkur Íslendingum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gabriel Iffe Lundberg skýtur á körfuna í fyrsta NBA leik sínum með Phoenix Suns sem var á móti liði Oklahoma City Thunder.
Gabriel Iffe Lundberg skýtur á körfuna í fyrsta NBA leik sínum með Phoenix Suns sem var á móti liði Oklahoma City Thunder. AP/Kyle Phillips

Danski körfuboltamaðurinn Gabriel Lundberg skrifaði danska körfuboltasögu um helgina þegar hann spilaði sinn fyrsta leik fyrir Phoenix Suns.

Með því varð Lundberg fyrsti danski körfuboltamaðurinn til að spila í NBA-deildinni.

Atburðir í Úkraínu hjálpuðu til að gera draum Lundberg að veruleika. Lundberg hafði hætt að spila með rússneska liðinu CSKA Moskvu eftir innrásina í Úkraínu og var því laus allra mála þegar Phoenix Suns bauð honum samning.

Gabriel er 27 ára gamall bakvörður sem var með 9,1 stig, 2,5 fráköst og 1,9 stoðsendingar að meðaltali í Rússlandi en hann hefur áður spilað í Póllandi og á Spáni. Hann var þarna að fá samning hjá besta liði NBA en Phoenix Suns er með besta sigurhlutfall allra liða í deildinni í vetur.

Lundberg var búinn að vera ónotaður varamaður í nokkrum leikjum en kom inn á í síðasta leik Phoenix Suns á móti Oklahoma City Thunder þar sem hann spilaði í fjórar mínútur, klikkaði á báðum skotum sínum en gaf eina stoðsendingu.

Lars Erik Hansen er fæddur í Kaupmannahöfn og spilaði í NBA á áttunda áratugnum. Hann er hins vegar kanadískur ríkisborgari og spilaði á sínum tíma fyrir kanadíska landsliðið. Christian Drejer var valinn af New Jersey Nets í nýliðavalinu árið 2014 en komst ekki að hjá liðinu og endaði hjá Barcelona.

Lundberg er því að skrifa söguna á þessu tímabili. Danir voru því meira en fjórum áratugum á eftir okkur Íslendingum að eignast körfuboltamann í NBA.

Pétur Karl Guðmundsson spilaði sinn fyrsta NBA-leik 8. nóvember 1981 eða fyrir meira en fjörutíu árum og fjórum mánuðum síðan. Það liðu réttir tæpir 485 mánuðir á milli þess að Pétur spilaði sinn fyrsta leik og fyrsti Daninn kom inn á í sínum fyrsta leik.

Pétur lék þá fyrir Portland Trail Blazers á móti Denver Nuggets en tveimur dögum síðar skoraði hann sín fyrstu stig í NBA í leik á móti Dallas Mavericks.

Alls lék Pétur 150 deildarleiki í NBA með Portland Trail Blazers (68), Los Angeles Lakers (8) og San Antonio Spurs (74) og svo fjórtán leiki í úrslitakeppni með Lakers (12) og Spurs (2). Pétur var með 4,6 stig og 3,8 fráköst að meðaltali á 13,7 mínútum í leik í deildarleikjunum.

Síðasti leikur Péturs í NBA var með San Antonio Spurs á móti Dallas Mavericks 27. desember 1988. Hann skoraði því fyrstu og síðustu stigin sín í deildinni á móti Dallas. Pétur varð að hætta að spila eftir þetta síðasta tímabil með Spurs vegna meiðsla.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×