Innherji

Ríkið felldi tillögu um að jafnræði sé tryggt við endurkaup á Íslandsbankabréfum

Hörður Ægisson skrifar
Í bréfi sem fjármálaráðuneytið sendi á Bankasýsluna vegna framhalds á sölu á Íslandsbanka kemur fram að óskað sé eftir því að stofnunin leggi mat á hvernig nýta megi áform um endurkaup til að „hámarka ábata ríkisins af sölu á sama tíma og jafnræði hluthafa í bankanum sé að fullu virt.“
Í bréfi sem fjármálaráðuneytið sendi á Bankasýsluna vegna framhalds á sölu á Íslandsbanka kemur fram að óskað sé eftir því að stofnunin leggi mat á hvernig nýta megi áform um endurkaup til að „hámarka ábata ríkisins af sölu á sama tíma og jafnræði hluthafa í bankanum sé að fullu virt.“

Stór hópur hluthafa í Íslandsbanka, annarra en Bankasýslunnar sem heldur utan um 65 prósenta hlut ríkissjóðs, lagðist gegn því að stjórn bankans fengi heimild til kaupa á eigin hlutum sem opnar á að félagið geti gert einstökum hluthöfum, eins og til dæmis íslenska ríkinu, tilboð um kaup á bréfum þeirra án þess að aðrir hluthafar hafi möguleika á þátttöku í slíkum endurkaupum.

Lífeyrissjóðurinn Gildi, fimmti stærsti hluthafinn með rúmlega 3,4 prósenta hlut, lagði til breytingartillögu fyrir aðalfund bankans síðasta fimmtudag sem fól í sér að gætt yrði að jafnræði hluthafa við framkvæmd endurkaupa bankans, líkt og almennt hefur verið í kaupum skráðra félaga á Íslandi á eigin bréfum undanfarin ár.

Tillaga stjórnar Íslandsbanka var hins vegar samþykkt á fundinum, á grundvelli stuðnings Bankasýslunnar, en með henni fær hún heimild til næstu tólf mánaða til að setja formlega endurkaupaáætlun eða gera hluthöfum tilboð um kaup bankans á eigin bréfum sem nemur allt að tíu prósent af hlutafé hans. Slíkt tilboð gæti meðal annars verið með útboðsfyrirkomulagi þar sem jafnræðis hluthafa er gætt við boð um þátttöku eða á „annan hátt sem stjórnin telur bankanum og hluthöfum hans hagfellt.“

Í greinargerð með breytingartillögu Gildis kom fram að þetta þýddi að stjórninni væri í „reynd veitt opin heimild til kaupa á eigin hlutabréfum séu slík viðskipti metin bankanum og hluthöfum hans að mati stjórnar“ og fór lífeyrissjóðurinn fram á að sú heimild yrði felld út. Mikilvægt væri að gæta jafnræðis við kaup á eigin bréfum bankans og að slík endurkaup geti þess vegna ekki verið sérstaklega ívilnandi gagnvart tilteknum hluthöfum, svo sem mögulega íslenska ríkinu.

„Miðað við atvik hverju sinni gæti verið að hluthafar hafi ekki áhuga á óbeinni aukinni fjárfestingu í félaginu og hafi áhuga á sölu á sömu skilmálum,“ sagði í greinargerð Gildis með tillögunni.

Breytingartillaga Gildis á aðalfundi Íslandsbanka fékk stuðning tæplega 14 prósent greiddra atkvæða, samkvæmt upplýsingum Innherja. Mætt var fyrir 81,7 prósent hlutfjár og því fór Bankasýslan í raun með um 79,6 prósent greiddra atkvæða á fundinum. Stuðningur við breytingartillögu Gildis var því nærri 68 prósent á meðal annarra hluthafa en íslenska ríkisins.

Fjármála- og efnahagsráðherra samþykkti fyrir helgi tillögu Bankasýslunnar um að halda áfram með sölu á eftirstandandi hlutum ríkissjóðs í Íslandsbanka ef markaðsaðstæður séu metnar hagfelldar. Til stendur að selja 65 prósenta hlutinn í nokkrum áföngum fyrir árslok 2023.

Í bréfi sem ráðuneytið sendi á Bankasýsluna síðasta föstudag, vegna ákvörðunar um framhald söluferlisins á Íslandsbanka, er vísað til samþykktar aðalafundarins um heimild til endurkaupa á eigin bréfum á allt að tíu prósent af hlutafé en miðað við núverandi markaðsvirði er slíkur hlutur metinn á um 24,3 milljarða.

Ráðuneytið segist í bréfinu óska eftir því að Bankasýslan „leggi mat á hvernig nýta megi þau áform til að hámarka ábata ríkisins af sölu“ en tekur hins vegar fram að það þurfi að gerast „á sama tíma og jafnræði hluthafa í bankanum sé að fullu virt.“

Rétt eins og arðgreiðslur eru kaup á eigin bréfum ein leið fyrir stjórnendur skráðu félaganna til að koma fjármunum sem þeir álíta vera umfram eigið fé í rekstrinum til hluthafa. Slík endurkaup fela í sér að félögin kaupa eigin bréf og afskrá þau síðan af markaði. Með því lækkar hlutafé félagsins og því eru færri bréf sem eiga tilkall til hagnaðar þannig að virði hvers hlutabréfs ætti að hækka í hlutfalli við þau sem eru tekin af markaði.

Á árunum 2015 til 2021 námu endurkaup fyrirtækja í Kauphöllinni samanlagt yfir 170 milljörðum króna á meðan arðgreiðslurnar yfir sama tímabil eru samtals um 140 milljarðar.

Bankasýslan stefnir að því, líkast til öðrum hvorum megin við næstkomandi mánaðarmót, að selja að lágmarki svo stóran hlut í næsta áfanga söluferlisins að eignarhald íslenska ríkisins fari niður fyrir helmingshlut í bankanum. Það þýðir að ríkissjóður þyrfti að selja rétt rúmlega 15 prósenta hlut en sé litið til hlutabréfaverðs Íslandsbanka í dag er slíkur eignarhlutur metinn á um 36 milljarða. Ef markaðsaðstæður reynast hagfelldar og áhugi verði fjárfesta verður mikill þykir hins vegar líklegt að enn stærri hlutur verði seldur, mögulega sem nemur um 20 prósenta hlut.

Tilboð til eins hluthafa eða afmarkaðs hóps þeirra án þess að öðrum hluthöfum sé á sama tíma gefið færi á þátttöku er ekki ákjósanlegt að mati sjóðsins.

Ljóst er að fjárfestar eru áfram um að ríkissjóður fari ekki með meirihluta í Íslandsbanka eftir að næsta skref í söluferlinu verður tekið og horfa þá samhliða því til mögulegra breytinga á stjórn bankans. Í krafti 65 prósenta eignarhlutar hefur Bankasýslan rétt á að tilnefna 4 af 7 stjórnarmönnum Íslandsbanka.

Í ákvörðun fjármálaráðuneytisins um að rétt sé að halda áfram með söluferlið á Íslandsbanka er meðal annars bent á þrátt fyrir að stríðsátökin í Úkraínu hafi haft margháttuð áhrif á eigna- og fjármálamarkaði á heimsvísu þá telji Bankasýslan að það raski ekki meginforsendum söluáformanna að svo stöddu. Verð á hlutum í bankanum hefur þannig aðeins lækkað um rúmlega 3 prósent frá áramótum – að tekju tilliti til arðgreiðslu upp á 11,9 milljarða – og stendur nú í 122 krónum á hlut. Það er 52 prósentum hærra en gengið í útboði bankans um mitt síðasta ár.

Bankasýslan mun horfa til þess að næsti áfangi sölumeðferðar fari með svonefndu tilboðsfyrirkomulagi (e. accelerated bookbuild). Slík leið er lang algengasta aðferðin sem ráðandi hluthafar nýta sér við sölu á stórum hlutum í skráðum félögum á evrópskum hlutabréfamarkaði.

Á seinni stigum söluferlisins komi til greina að selja með miðlunaráætlun og/eða markaðssettu útboði. Miðlunaráætlun felst í því að verðbréfafyrirtæki fái fyrirmæli um að selja ákveðinn hluta fjölda hluta yfir visst tímabil, háð framboði og eftirspurn hverju sinni.

Áætlað er að salan verði í nokkrum áföngum yfir allt að tveggja ára tímabil.

Fyrir utan íslenska ríkið eru stærstu hluthafar Íslandsbanka í dag sjóðastýringarfyrirtækið Capital Group, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins, Lífeyrissjóður verslunarmanna, Gildi lífeyrissjóður og Stapi lífeyrissjóður. Hluthafar voru um 24 þúsund talsins við skráningu í Kauphöllina en hefur síðan þá fækkað um liðlega átta þúsund.


Tengdar fréttir

Almennir fjárfestar orðnir „ansi sjóaðir“

Örvar Snær Óskarsson, sjóðstjóri Eldgjár, blandaðs sjóðs á vegum Kviku eignastýringar, býst ekki við því að hræringar síðustu vikna á hlutabréfamarkaði muni fæla almenna fjárfesta frá markaðinum. Hann gerir ráð fyrir að áform um nýskráningar á þessu ári muni ganga eftir en þær hafa verið einn stærsti drifkrafturinn að baki aukinni þátttöku almennra fjárfesta.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×