Viðskipti innlent

Hyggja á áframhaldandi sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. vísir/vilhelm

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hefur ákveðið að ráðast í framhald sölumeðferðar á hlutum í Íslandsbanka, í samræmi við tillögu Bankasýslu ríkisins frá því í janúar á þessu ári.

Í tilkynningu ráðuneytisins á vef Stjórnarráðsins kemur fram að Bjarni hafi sent Bankasýslunni bréf um ákvörðun sína í dag.

„Ákvörðun ráðherra byggir á fyrirliggjandi greinargerð sem lögð var fyrir fjárlaganefnd og efnahags- og viðskiptanefnd Alþingi og felur í sér að bankinn skuli seldur í áföngum fyrir árslok 2023.

Umsagnir nefndanna liggja nú fyrir, en meiri hlutar þeirra beggja mæla með því að hafist verði handa við framhald sölu. Þá telur Seðlabankinn að telja megi að jafnræði bjóðenda verði tryggt og er salan talin hafa takmörkuð áhrif á gjaldeyrismarkað, gjaldeyrisforða bankans og laust fé í umferð,“ segir í tilkynningunni.

Ráðherra hefur sent Bankasýslu ríkisins bréf um ákvörðunina.Vísir/Vilhelm

Þar segir að framhald sölu verði háð því að markaðsaðstæður séu hagfelldar.

„Þrátt fyrir að ófriður í Austur Evrópu hafi haft margháttuð áhrif á eigna- og fjármálamarkaði á heimsvísu telur Bankasýslan að það raski ekki meginforsendum söluáformanna að svo stöddu. Þannig hafi verð á hlutum í bankanum ekki verið hærra en það er um þessar mundir,“ segir jafnframt í tilkynningunni.

Á síðasta ári seldi ríkið um 35 prósenta hlut sinn í Íslandsbanka, fyrir 55 milljarða króna. Ríkið á enn um 65 prósenta hlut í bankanum

Á vef Stjórnarráðsins er þá hægt að nálgast hlekki á efni sem tengist fyrirhugaðri sölumeðferð á hlutum í Íslandsbanka.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×