Innherji

Almennir fjárfestar orðnir „ansi sjóaðir“

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Eignir í stýringu Eldgjár, sem var stofnuð í lok árs 2020 og hefur skilað um 25 prósenta ávöxtun frá stofnun sjóðsins, hækkuðu úr 400 milljónum króna upp í tæplega 2 milljarða á einu ári.
Eignir í stýringu Eldgjár, sem var stofnuð í lok árs 2020 og hefur skilað um 25 prósenta ávöxtun frá stofnun sjóðsins, hækkuðu úr 400 milljónum króna upp í tæplega 2 milljarða á einu ári. Samsett mynd

Örvar Snær Óskarsson, sjóðstjóri Eldgjár, blandaðs sjóðs á vegum Kviku eignastýringar, býst ekki við því að hræringar síðustu vikna á hlutabréfamarkaði muni fæla almenna fjárfesta frá markaðinum. Hann gerir ráð fyrir að áform um nýskráningar á þessu ári muni ganga eftir en þær hafa verið einn stærsti drifkrafturinn að baki aukinni þátttöku almennra fjárfesta.

Þrátt fyrir að hlutabréfamarkaðurinn hafi átt erfitt uppdráttar frá því í haust nam hækkun úrvalsvísitölunnar á árinu 2021 í heild sinni liðlega 33 prósentum. Innrás Rússlands í Úkraínu hefur hins vegar litað þróun hlutabréfaverðs á þessu ári.

Lágpunktur ársins var 8. mars þegar úrvalsvísitalan hafði lækkað um 16 prósent frá áramótum en síðan þá hafa lækkanirnar gengið til baka að hluta til, meðal annars vegna væntinga um að Rússar og Úkraínumenn nái samkomulagi um vopnahlé. Lækkunin frá áramótum nemur nú um 7 prósentum.

„Ég er ekki að sjá að þessar hræringar dragi úr áhuga almennra fjárfesta og nú erum við að sjá markaðinn koma til baka,“ segir Örvar.

Þrátt fyrir lækkanir á þessu ári eru margir enn í góðum hagnaði og þá er auðveldara að standa af sér storminn.

„Miðað við okkar sjóði sýnist mér að almennir fjárfestar séu orðnir ansi sjóaðir, sérstaklega eftir að hafa séð markaðinn koma sterkan út úr kóvid. Þrátt fyrir lækkanir á þessu ári eru margir enn í góðum hagnaði og þá er auðveldara að standa af sér storminn. Fólk hefur tilhneigingu til að selja, jafnvel þótt það sé ekki endilega rökrétt, þegar það sér safnið í mínus.“

Á síðustu misserum hefur áhugi almennings á verðbréfum stóraukist en aukninguna má að miklu leyti rekja til vel heppnaðra hlutafjárútboða hér á landi. Einnig hafa lágir vextir ýtt sparifjáreigendum í áhættumeiri fjárfestingar.

Samkvæmt gögnum Seðlabanka Íslands fyrir janúar hafa eignir fjárfestingarsjóða hækkað um 32 prósent frá janúar 2021, eða um 139 milljarða króna. Af fjárfestingarsjóðum hafa hlutabréfasjóðir og blandaðir sjóðir hækkað hlutfallslega mest frá janúar 2021, hlutabréfasjóðir um 63 prósent og blandaðir sjóðir um 83 prósent.

Eignir í stýringu Eldgjár, sem var stofnuð í lok árs 2020 og hefur skilað um 25 prósenta ávöxtun frá stofnun sjóðsins, hækkuðu úr 400 milljónum króna upp í tæplega 2 milljarða á einu ári. Að sögn Örvars mátti greina verulegan vöxt í byrjun þessa árs eftir að boðið var upp á að kaupa í sjóðnum með rafrænum skilríkjum.

„Fyrir ekki svo löngu síðan þurfti að standa í alls konar skriffinnsku, hringja og jafnvel mæta á staðinn til að hefja viðskipti í svona sjóðum. Í dag hefur þetta ferli verið einfaldað til muna, þarf einungis að fara inn á heimasíðu rekstrarfélagsins, finna þann sjóð sem þú vilt kaupa í og ganga frá viðskiptunum með rafrænum skilríkjum, óháð því hjá hvaða viðskiptabanka viðkomandi er. Við sáum töluverða aukningu í sjóðaviðskiptum eftir að við kynntum þessa lausn.“

Stóra myndin er sú að það er heilmikið fjármagn á hliðarlínunni og heilmikill áhugi fyrir hendi.

Á síðustu mánuðum hefur verið greint frá skráningaráformum nokkurra fyrirtækja úr ólíkum atvinnugreinum. Má þar nefna Nova, Ölgerðina, Arctic Adventures, Coripharma og fjárfestingafélagið Bluevest Capital.

Vel heppnuð útboð hafa verið drifkraftur í því að auka þátttöku almennra fjárfesta á hlutabréfamarkaði. Sérðu fyrir þér að hræringar síðustu vikna hafi mikil áhrif á skráningaráform?

„Ég á ekki von á öðru en að þetta klárist flest á árinu því félögin sem áforma skráningu eru flest að sækja innlent fjármagn. Stríðsátökin í Úkraínu eru hörmuleg og hugur okkar er hjá fólkinu þar, en bein áhrif á félög hér heima eru þó takmörkuð, a.m.k. meðan ástandið versnar ekki,“ segir Örvar. 

„Stóra myndin er sú að það er heilmikið fjármagn á hliðarlínunni og heilmikill áhugi fyrir hendi. Sparnaður almennings er mikill, við erum að sjá miklar arðgreiðslur hjá fyrirtækjum í Kauphöllinni og stórir lífeyrissjóðir þurfa áfram að kaupa innlend hlutabréf á meðan þeir eru nálægt þakinu í erlendum fjárfestingum,“ segir Örvar.

Eldgjá er sá sjóður á vegum Kviku eignastýringar sem hefur mestan sveigjanleika. Sjóðurinn fjárfestir í innlendum og erlendum hlutabréfum og skuldabréfum auk þess að vera með virka gjaldeyrisáhættustýringu. Fjárfestingarheimildirnar eru víðtækar en þannig getur sjóðurinn auðveldlega fært sig á milli eignaflokka.

„Þetta er lykilatriði við stýringu sjóðsins. Þannig getum við kúplað okkur út úr þeim mörkuðum sem við teljum að verði þungir næstu misserin. Svo ég taki dæmi þá vorum við með um þriðjung af eignasafninu í erlendum hlutabréfum á síðasta ári en í byrjun þessa árs, þegar horfurnar fóru versnandi, minnkuðum við hlutinn niður í 20 prósent. Og þegar Úkraínustríðið byrjaði minnkuðum við hann niður í 10 prósent,“ útskýrir Örvar.

„Við sáum einnig fyrir okkur töluverða styrkingu krónu á árinu og vorum með erlendar eignir sjóðsins varðar fyrir því, en þær forsendur áttu ekki lengur við eftir að innrás Rússa hófst. Þá minnkuðum við gjaldeyrisvarnirnar því sögulega styrkist Bandaríkjadalur við svona aðstæður. Fjármagnið leitar í öryggið.“


Tengdar fréttir

Fjármagn hélt áfram að flæða í hlutabréfasjóði þrátt fyrir titring á mörkuðum

Þrátt fyrir hræringar á verðbréfamörkuðum, bæði hér heima og erlendis, og talsverðar verðlækkanir hlutabréfavísitalna þá var ekkert lét á stöðugu innflæði í innlenda hlutabréfasjóði á fyrsta mánuði þessa árs. Fjárfestingar í slíkum sjóðum, að frádregnu útflæði, námu þannig samtals rúmlega 2.060 milljónum króna í janúar.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.