Innherji

Frekari sala á hlutum í Íslandsbanka virðisaukandi fyrir ríkið og aðra hluthafa

Hörður Ægisson skrifar
Fyrr í þessum mánuði gaf Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, grænt ljós á tillögu Bankasýslunnar um að stofnunin hefji undirbúning hið fyrsta að framhaldi á sölumeðferð á eftirstandandi 65 prósenta hlut ríkisins í Íslandsbanka.
Fyrr í þessum mánuði gaf Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, grænt ljós á tillögu Bankasýslunnar um að stofnunin hefji undirbúning hið fyrsta að framhaldi á sölumeðferð á eftirstandandi 65 prósenta hlut ríkisins í Íslandsbanka. VÍSIR/VILHELM

Heppilegur tími er nú fyrir áframhaldandi sölu á eignarhlutum ríkissjóðs í Íslandsbanka og með auknu floti, þ.e. þeir hlutir sem má ætla að geti gengið kaupum og sölum, má ganga út frá því að það verði enn auðveldara að eiga viðskipti með hlutabréf í bankanum á markaði.

„Fjárfestar kunna að meta slíkan aukinn seljanleika,“ segir í minnisblaði Kauphallarinnar til fjárlaganefndar sem er nú með til umfjöllunar tillögu Bankasýslunnar, sem fjármálaráðherra hefur samþykkt, um frekari sölu á hlutum ríkisins í Íslandsbanka.

Kauphöllin segir að slíkt skref ætti því að öðru jöfnu að vera virðisaukandi aðgerð fyrir ríkissjóð og aðra hluthafa Íslandsbanka. Þá muni það styrkja fjármögnunarumhverfi fyrirtækja hér á landi og um leið íslenskt efnahagslíf.

Markaðsvirði eftirstandandi 65 prósenta eignarhlutar ríkisins í Íslandsbanka er í dag um 165 milljarðar króna en það hefur hækkað um meira en 60 prósent miðað við útboðsgengið í júní í fyrra þegar ríkissjóður seldi 35 prósenta hlut fyrir 55 milljarða samhliða skráningu bankans í Kauphöllina.

Bankasýslan stefnir að því á komandi vikum, eins og Innherji hefur áður fjallað um, að selja að lágmarki svo stóran hlut í næsta áfanga söluferlisins að eignarhald íslenska ríkisins fari niður fyrir helmingshlut í bankanum. Það þýðir að ríkissjóður þyrfti að selja rétt rúmlega 15 prósenta hlut en sé litið til hlutabréfaverðs Íslandsbanka í dag er slíkur eignarhlutur metinn á tæplega 40 milljarða. Ef markaðsaðstæður reynast hagfelldar og áhugi verði fjárfesta verður mikill þykir hins vegar líklegt að enn stærri hlutur verði seldur, mögulega sem nemur um 20 prósenta hlut.

Ljóst er að fjárfestar eru áfram um að ríkissjóður fari ekki með meirihluta í Íslandsbanka eftir að næsta skref í söluferlinu verður tekið og horfa þá samhliða því til mögulegra breytinga á stjórn bankans. Í krafti 65 prósenta eignarhlutar hefur Bankasýslan rétt á að tilnefna 5 af 7 stjórnarmönnum Íslandsbanka en næsti aðalfundur fer fram 17. mars næstkomandi og fyrirsjáanlegt er að talsverð uppstokkun verði þá á stjórn bankans.

Í minnisblaði Kauphallarinnar er nefnt að sömu rök eigi við nú og fyrir um ári síðan þegar fjárlaganefnd var með til umfjöllunar áform ríkisstjórnarinnar að hefja sölu á hlutum í Íslandsbanka og skrá hann á hlutabréfamarkað.

Þannig er bent á að stærð Íslandsbanka og hversu vel hann endurspeglar íslenskt atvinnulíf sé til þess fallið að laða erlenda fjárfesta að fjármagnsmarkaði hérlendis, eins og hafi sýnt sig í frumútboði bankans á liðnu ári.

„Sala á hlutum í Íslandsbanka hefur því jákvæð áhrif á fjármagnsflæði inn í landið. Þetta er mikilvægt mótvægi við útflæði vegna til dæmis fjárfestinga lífeyrissjóða erlendis. Forsenda þess að íslenskir lífeyrissjóðir geti fjárfest nægilega erlendis án neikvæðra áhrifa á gengisstöðugleika er vilji erlendra aðila til að fjárfesta á Íslandi,“ segir Kauphöllin.

Þá kemur fram í minnisblaðinu að innkoma erlendra fjárfesta á innlendan hlutabréfamarkað með kaupum á bréfum í Íslandsbanka sé einnig líklegt til að gagnast öðrum íslenskum félögum til fjármögnunar þegar til lengri tíma er litið.

Kauphöllin rifjar einnig upp að í minnisblaði sínu til fjárlaganefndar fyrir um ári hafi verið bent á mikilvægi þess að fjölga stórum félögum á markaði en eitt skilyrða sem alþjóðlega vísitölufyrirtækið MSCI notar við gæðaflokkun hlutabréfamarkaða snýr beinlínis að fjölda stórra skráðra fyrirtækja. Það snýr ekki einungis að markaðsvirði félaganna heldur einnig svokallaðs „flots“, þ.e. markaðsvirði þeirra hluta í félögunum sem almennt má ætla að geti gengið kaupum og sölum en frá floti dragast meðal annars hlutur í eigu ríkisins.

„Með frekari sölu ríkisins á hlutum í Íslandsbanka eykst því flot hlutabréfa í bankanum og þar með aukast möguleikar Íslands til að klífa gæðaflokkunarstiga alþjóðlegra vísitölufyrirtækja. Eftir því sem hlutabréfamarkaður lands færist ofar í flokkunarstigann fjölgar þeim fjárfestum sem vilja eða hreinlega verða að fjárfesta á viðkomandi markaði,“ segir Kauphöllin.

Hlutabréfaverð hefur hækkað töluvert frá því að frumútboð Íslandsbanka fór fram í júní í fyrra. Heildarvísitala Aðalmarkaðar í Kauphöllinni hefur þannig hækkað um 17 prósent frá lokum útboðsins en verð Íslandsbanka hefur hækkað um 34 prósent ef miðað er við lok fyrsta viðskiptadags með bréfin í bankanum. Það er meiri verðhækkun en hjá öðrum bönkum á markaði, en bréf Arion eru upp um 30 prósent á sama tíma og gengi Kviku banka hefur hækkað um 11 prósent.

„Það er einnig lýsandi fyrir aukinn styrk íslensks hlutabréfamarkaðar að áhugi félaga á skráningu er óvenju mikill um þessar mundir og væntir Kauphöllin þess að nýskráningar í ár verði að minnsta kosti jafn margar og í fyrra,“ fullyrðir Kauphöllin í minnisblaði sínu.

Bankasýslan mun horfa til þess að næsti áfangi sölumeðferðar fari með svonefndu tilboðsfyrirkomulagi (e. accelerated bookbuild). Slík leið er lang algengasta aðferðin sem ráðandi hluthafar nýta sér við sölu á stórum hlutum í skráðum félögum á evrópskum hlutabréfamarkaði. Á seinni stigum söluferlisins komi til greina að selja með miðlunaráætlun og/eða markaðssettu útboði. Miðlunaráætlun felst í því að verðbréfafyrirtæki fái fyrirmæli um að selja ákveðinn hluta fjölda hluta yfir visst tímabil, háð framboði og eftirspurn hverju sinni. Áætlað er að salan verði í nokkrum áföngum yfir allt að tveggja ára tímabil.

Kauphöllin tekur fram í sínu minnisblaði að hún geri ekki athugasemd við þá aðferðafræði sem Bankasýslan mun beita við söluferlið enda sé hún í takti við algengt fyrirkomulag við sambærilega sölu.

Fyrir utan íslenska ríkið eru stærstu hluthafar Íslandsbanka í dag sjóðastýringarfyrirtækið Capital Group, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins, Lífeyrissjóður verslunarmanna og Gildi lífeyrissjóður. Hluthafar voru um 24 þúsund talsins við skráningu í Kauphöllina en hefur síðan þá fækkað um liðlega átta þúsund.


Tengdar fréttir

Lífeyrissjóðir hafa bætt 6 prósentum við hlut sinn í Íslandsbanka

Lífeyrissjóðir hafa bætt töluvert við hlut sinn í Íslandsbanka frá hlutafjárútboði bankans í júní á síðasta ári en á sama tíma hefur hlutdeild erlendra fjárfesta í bankanum minnkað. Þetta má lesa úr skýrslu fjármálaráðherra um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í Íslandsbanka, sem var lögð fyrir Alþingi.

Bankasýslan óskar eftir heimild til að selja restina af Íslandsbanka

Bankasýsla ríkisins lagði í gær fram tillögu til fjármála- og efnahagsráðherra um að stofnunin fái heimild til ársloka 2023 til að selja alla eignarhluti ríkisins í Íslandsbanka í nokkrum áföngum og að höfðu samráði við ráðherra. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef stofnunarinnar.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.