Körfubolti

„Ef maður fær galopið skot í horninu í jöfnum leik lætur maður það fljúga“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Davíð Arnar Ágústsson var ómetanlegur fyrir Þór Þ. á lokakaflanum.
Davíð Arnar Ágústsson var ómetanlegur fyrir Þór Þ. á lokakaflanum. vísir/bára

Davíð Arnar Ágústsson setti niður tvö stór skot undir lokin þegar Þór Þ. vann Val í undanúrslitum VÍS-bikarsins í körfubolta í kvöld. Leikurinn var mjög jafn en Þórsarar höfðu sigur á endanum.

„Þetta er bara eitt skot sem dettur og annað sem dettur ekki. Við settum niður tvö stór skot undir lokin á meðan þeir klikkuðu. Þetta var bara jafn leikur tveggja mjög góðra liða,“ sagði Davíð við Vísi eftir leik.

Hann var ískaldur undir lokin og setti niður tvö stór skot. „Ef maður fær möguleika verður maður að negla þessu niður. Þetta eru augnablikin og ástæðan fyrir því að maður er í körfubolta, að fá þessa leiki. Og ef maður fær galopið skot í horninu í jöfnum leik lætur maður það fljúga.“

Þór var lengst af með frumkvæðið í leiknum en Valur komst yfir, 75-76, þegar þrjár og hálf mínúta var eftir. Þórsarar svöruðu því með sjö stigum í röð.

„Þetta var mjög kaflaskipt. Við vorum sex stigum yfir en þá skoruðu þeir sjö stig í röð. Við tókum leikhlé og komust aftur sex stigum yfir. Þetta voru tvö góð lið, góðir leikmenn og skemmtilegur leikur,“ sagði Davíð.

Þórsarar eru Íslandsmeistarar og geta bætt bikarmeistaratitli í safnið með sigri á Stjörnumönnum á laugardaginn.

„Við erum í þessu til að vinna titla. Við byrjuðum á því síðasta sumar og þá er bara að halda því áfram. Það er mjög gaman að vinna titil,“ sagði Davíð að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×