Innlent

Rukka inn á bíla­­­stæði í ó­­­þökk sveitar­­fé­lags

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Nú kostar þúsund kall að leggja við Reykjanesvita. 
Nú kostar þúsund kall að leggja við Reykjanesvita.  vísir/einar

Bæjar­stjóri Reykja­nes­bæjar for­dæmir ferða­þjónustu­fyrir­tæki fyrir að rukka gjald inn á bíla­stæði við Reykja­nes­vita. Hann segir fyrir­tækið hafa svikið lof­orð um að koma fyrst upp þjónustu­mið­stöð á svæðinu áður en rukkað yrði inn á það.

Sú aðferð að rukka fyrir aðgang inn á þekkta ferðamannastaði hefur lengi verið nokkuð umdeild hér á Íslandi.

Oft kemur eitthvað í staðinn fyrir gjaldið; því er ætlað að styðja undir viðhald eða þjónustu á svæðinu.

Fyrir sex árum var fyrsta skóflustungan tekin að þjónustumiðstöð sem átti að reisa við Reykjanesvita.

Þrátt fyrir að ekki sé komin nein þjónustumiðstöð við svæðið eru nú komin þangað gjaldskyld bílastæði og nú kostar þúsund krónur að komast upp að Reykjanesvita á bíl. Þetta er bærinn allt annað en sáttur með.

„Nei, þetta er gert í óþökk Reykjanesbæjar eins og þetta er framkvæmt núna. Við samþykktum á sínum tíma áform rekstraraðila um uppbyggingu á þjónustumiðstöð,“ segir Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar. 

Bæjarstjórinn er ekki sáttur með ferðaþjónustufyrirtækið Reykjanes Aurora.vísir/einar

Ósammála um heimildina

Það er ferðaþjónustufyrirtækið Reykjanes Aurora sem sér um svæðið en samkvæmt forsvarsmönnum þess telja þeir sig í fullum rétti samkvæmt samningi til að rukka inn á svæðið.

Í leigusamningi fyrirtækisins við landeigendur sem bærinn samþykkti á sínum tíma virðist skýrt kveðið á um þessa heimild. Þar segir meðal annars: 

„Leigutaka er heimilt að innheimta gjald vegna aðgangs að bílastæðum á svæðinu, fjárhæð ákvarðast af leigutaka hverju sinni“

Bæjarstjórinn er þó á því að talað hafi verið um að reisa þjónustumiðstöðina fyrst.

„Við veittum heimild sveitarfélagsins til þess að þarna yrðu innheimt bílastæðagjöld. Við veittum heimild fyrir okkar leyti en með því fororði að þjónustan væri komin,“ segir Kjartan Már.

Þó landið sé í einkaeigu hafi bærinn heilmikið að segja um málefni þess en einnig Umhverfisstofnun því náttúruminjar má finna á því.

„Við erum með skipulagsvaldið á svæðinu. Þannig að jú við höfum heilmikið um það að segja og erum að mótmæla þessu en hefur því miður ekki orðið ágengt í því enn þá,“ segir Kjartan Már.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×