Körfubolti

Jón Axel og félagar töpuðu naumlega

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Jón Axel Guðmundsson og félagar hans í Crailsheim Merlins töpuðu naumlega í þýsku úrvalsdeildinni í körfubolta í kvöld.
Jón Axel Guðmundsson og félagar hans í Crailsheim Merlins töpuðu naumlega í þýsku úrvalsdeildinni í körfubolta í kvöld. VÍSIR/BÁRA

Jón Axel Guðmundsson og félagar hans í Crailsheim Merlins máttu þola naumt fimm stiga tap, 101-96, er liðið heimsótti Bonn í þýsku úrvalsdeildinni í körfubolta í kvöld.

Mikið jafnræði var með liðunum allt frá fyrstu mínútu og munurinn í fyrsta leikhluta varð aldrei meiri en fimm stig. Að honum loknum var allt jafnt, 23-23.

Það sama var uppi á teningnum í öðrum leikhluta þar sem hvorugu liðinu tókst að ná afgerandi forystu. Jón Axel og félagar náðu mest sjö stiga forskoti fyrir hálfleik, en þegar gengið var til búningsherbergja var sú forysta komin niður í eitt stig, staðan 52-51, Crailsheim Merlins í vil.

Í þriðja leikhluta var meira af því sama. Liðin skiptust á að skora og hafa forystuna og þegar komið var að lokaleikhlutanum var staðan jöfn, 73-73.

Það voru svo heimamenn í Bonn sem reyndust sterkari í lokaleikhlutanum. Þeir unnu að lokum fimm stiga sigur, 101-96.

Jón Axel skoraði tvö stig fyrr Crailsheim Merlins og gaf eina stoðsendingu. Liðið situr nú í sjöunda sæti deildarinnar með 24 stig eftir 19 leiki, átta stigum á eftir Bonn sem situr í þriðja sæti eftir sigur kvöldsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×