Körfubolti

FIBA bannar Rússum keppni og Ísland gæti komist á HM

Sindri Sverrisson skrifar
Íslenska landsliðið er í riðli með Rússlandi í undankeppni HM.
Íslenska landsliðið er í riðli með Rússlandi í undankeppni HM. vísir/bára

Alþjóða körfuknattleikssambandið, FIBA, hefur ákveðið að banna Rússneskum landsliðum og dómurum að taka þátt í mótum á vegum sambandsins um óákveðinn tíma vegna innrásar Rússa í Úkraínu. Rússar eru með Íslendingum í riðli í undankeppni HM karla.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá FIBA í dag þar sem segir að sambandið fari eftir þeim leiðbeiningum sem alþjóða ólympíunefndin sendi frá sér í gær.

FIBA vottar fórnarlömbum stríðsins í Úkraínu innilega samúð sína og kallar eftir friði í heiminum. Stjórn sambandsins mun funda 25. mars um frekari ákvarðanir og það mun Evrópudeild sambandsins einnig gera á næstu dögum.

Rússland er í riðli með Íslandi, Ítalíu og Holland í undankeppni HM og hefur unnið alla þrjá leiki sína til þessa, þar á meðal 89-65 gegn Íslandi í Pétursborg 29. nóvember. 

Rússar áttu að mæta Hollandi á sunnudaginn, eftir að innrásin í Úkraínu var hafin, en leiknum var frestað eftir að Hollendingar sögðu að ekki kæmi til greina að leikurinn færi fram.

Rússar áttu að koma til Íslands í sumar

Þrjú lið komast áfram úr riðlinum yfir á seinna stig undankepninnar, og taka með sér úrslitin úr riðlinum. 

Fari svo að Rússar verði dæmdir úr keppni komast Ísland, Holland og Ítalía því öll áfram, og þar sem að Ísland hefur þegar unnið tvo sigra, gegn Hollandi á útivelli og Ítalíu á heimavelli, yrði liðið í afar góðri stöðu ef því yrði einnig dæmdur sigur í leikjunum tveimur við Rússa.

Síðustu leikir Íslands í fyrri hluta undankeppninnar áttu að vera gegn Hollandi og Rússlandi á heimavelli í byrjun júlí en eins og fyrr segir ríkir nú óvissa um leikinn við Rússland.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.