Sport

Ísmaðurinn með tvo níu pílna leiki sama kvöldið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Gerwyn Price sýndi magnaða frammistöðu í gærkvöldi.
Gerwyn Price sýndi magnaða frammistöðu í gærkvöldi. getty/Rob Newell

Það er ekki á hverjum degi sem keppandi nær níu pílna leik, hvað þá tvisvar sinnum sama kvöldið. En Gerwyn Price afrekaði það í úrvalsdeildinni í pílukasti í Belfast í gær.

Walesverjinn var í miklum ham í gær. Í leikjunum þremur tók hann einu sinni 170 út, fékk tólf sinnum 180 og var með meðaltalið 107,58. Og var með tvo níu pílna leiki, það er að taka út 501 með aðeins níu pílum sem er það minnsta sem hægt er.

Í átta liða úrslitunum á þriðja keppniskvöldi úrvalsdeildarinnar vann Price Michael Smith, 6-3. Ísmaðurinn fylgdi því eftir með því að vinna Michael van Gerwen í undanúrslitunum, 6-5. Þar náði hann níu pílna leik.

Hann endurtók leikinn í úrslitunum þar sem hann vann James Wade, 6-4. Fyrir sigurinn fékk Price fimm stig og tíu þúsund pund. Hann er nú aðeins einu stigi á eftir efsta manni úrvalsdeildarinnar, landa sínum Jonny Clayton.

„Mér fannst ég ekki geta klúðrað. Ég er að spila vel og líður vel. Það skýrist að miklu leyti að ég hef hugsað vel um mig og mætt í ræktina. Ég er næstum því að komast í mitt besta form og gæti verið kominn þangað,“ sagði Price.

Þrátt fyrir að árið 2022 sé ekki gamalt hefur Price náð þremur níu pílna leikjum á því. Hann náði einnig níu pílna leik í viðureigninni gegn Smith í átta liða úrslitum HM á nýársdag. Price tapaði þeim leik reyndar, 5-4.

Næsta keppniskvöld úrvalsdeildarinnar verður í Exeter 3. mars næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×