Handbolti

Sandra til eins besta liðs Þýskalands og landsliðsparið getur nú hafið sambúð

Sindri Sverrisson skrifar
Sandra Erlingsdóttir kvittar undir samning til þriggja ára við Metzingen.
Sandra Erlingsdóttir kvittar undir samning til þriggja ára við Metzingen. TuS Metzingen

Sandra Erlingsdóttir gengur í sumar í raðir eins besta liðs Þýskalands. Þessi 23 ára landsliðskona í handbolta hefur skrifað undir samning til þriggja ára við Metzingen.

Metzingen, sem er þekkt fyrir sinn bleika einkennislit, er sem stendur í 3. sæti þýsku deildarinnar, á eftir meisturum Dortmund og Bietigheim. Liðið endaði jafnframt í 3. sæti á síðustu leiktíð.

Félagið kynnti í dag þrjár landsliðskonur til leiks sem koma til félagsins næsta sumar en auk Söndru eru það hin pólska Magda Balsam og hin svissneska Lea Schüpbach.

Sandra er ekki ókunn því að spila í Þýskalandi því þar lék hún með Füchse Berlín 2015-2016, þegar Erlingur Richardsson pabbi hennar var þjálfari samnefnds karlaliðs.

Síðan þá hefur Sandra stýrt sóknarleiknum hjá ÍBV og Val þar til að hún gekk í raðir Álaborgar í Danmörku þar sem hún hefur leikið síðustu tvö ár.

Mjög krefjandi en skemmtilegt á sama tíma

Sandra segist í samtali við handbolta.is vel hafa getað hugsað sér að vera áfram í Danmörku en Metzingen hafi verið draumaliðið í Þýskalandi. Kærasti hennar, landsliðsmaðurinn Daníel Þór Ingason, er auk þess leikmaður Balingen í Þýskalandi.

„[Metzingen] er byggt upp á ungum, efnilegum leikmönnum með blöndu af reynslumiklum eldri leikmönnum. Þetta verður því mjög krefjandi en skemmtilegt á sama tíma. Ekki skemmir heldur fyrir að liðið er 40 mínútur frá Balingen þar sem Daníel spilar og því getum við búið saman í fyrsta skiptið síðan við byrjuðum saman,“ sagði Sandra við handbolta.is.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×