Umfjöllun og viðtöl: Þór Þ. - Kefla­vík 114-89 | Ís­lands­meistararnir unnu stór­sigur

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Þór Þorlákshöfn vann öruggan sigur í kvöld.
Þór Þorlákshöfn vann öruggan sigur í kvöld. Vísir/Bára

Þór Þorlákshöfn lyfti sér á topp Subway-deildar karla með öruggum 25 stiga sigri gegn Keflvíkingum í Icelandic Glacial höllinni í Þorlákshöfn í kvöld. Lokatölur urðu 114-89, en sigur heimamanna var nánast orðinn formsatriði í hálfleik.

Mikill hraði var í upphafi leiks og bæði lið nutu sín greinilega vel fyrir framan nánast fulla Icelandic Glacial höllina. Það var jafnt á öllum tölum fyrri hluta fyrsta leikhluta, en heimamenn komust á flug þegar á leið og þeir fóru með tíu stiga forskot inn í annan leikhlutann.

Þórsarar gáfu svo engan afslátt í öðrum leikhluta og keyrðu yfir gestina. Luciano Massarelli hafði komið vel inn í fyrsta leikhlutann og hann hélt áfram að stríða gestunum fram að hálfleik. Þegar gengið var til búningsherbergja var munurinn orðinn 27 stig, staðan 63-36.

Heimamenn hægðu örlítið á leik sínum í síðari hálfleik og meira jafnræði var með liðunum. Það breytti því þó ekki að þeir juku forskot sitt um fimm stig áður en komið var að lokaleikhlutanum og sigurinn því nánast í höfn.

Þórsarar gátu leyft sér að slaka aðeins á í fjórða leikhluta sem varð til þess að gestirnir náðu að klóra aðeins í bakkann á lokamínútunum. Sigur heimamanna var þó aldrei nálægt því að vera í nokkurs konar hættu, en lokatölur urðu sem áður segir 114-89.

Af hverju vann Þór?

Þórsarar voru einfaldlega betri í kvöld. Það væri hægt að fara í einhverjar pælingar varðandi það hvað gerði þá betri, en sigur þeirra var það öruggur að það er óþarfi. Þeir keyrðu yfir gestina í fyrri hálfleik og gátu svo leyft leiknum að renna sitt skeið í síðari hálfleik.

Hverjir stóðu upp úr?

Luciano Massarelli fór fyrir sóknarleik heimamanna í kvöld. Hann var eins og elding á vellinum og hljóp oft á tíðum hringi í kringum vörn Keflvíkinga. Hann endaði leikinn með 32 stig, eitt frákast og sjö stoðsendingar, en það er frammistaða upp á 29 framlagspunkta.

Hvað gekk illa?

Keflvíkingum gekk bölvanlega að stöðva sóknarleik heimamanna. Þórsarar voru reyndar að skjóta ótrúlega vel fyrir utan þriggja stiga línuna í fyrri hálfleik, en þegar það gekk ekki jafn vel í síðari hálfleik tóku þeir bara fráköstin og kláruðu flestar sóknir með fleiri stig á töflunni en þeir hófu hana með.

Hvað gerist næst?

Bæði lið mæta Breiðablik í næsta leik sínum. Keflvíkingar taka á móti þeim á mánudaginn og Þórsarar á föstudaginn eftir viku.

Lárus: „Við ætluðum ekki að vera í einhverjum upp og niður leik“

Lárus Jónsson var ánægður með sigur kvöldsinsVísir/Bára Dröfn

„Við vorum rosalega góðir,“ sagði Lárus Jónsson, þjálfari Þórsara, að leik loknum. „Við vorum að spila góða vörn og vorum búnir að tala um að við ætluðum að einblína á vörnina í þessum leik og þannig kemur sóknarleikurinn í kjölfarið.“

Þrátt fyrir að Lárus hafi sérstaklega nefnt varnarleik liðsins verður ekki tekið af Þórsurum að þeir spiluðu einnig frábæran sóknarleik í kvöld. Hann segir að nánast allt sem hafi verið lagt upp með fyrir leik hafi gengið upp.

„Já, já. Svo fannst mér líka að þegar við vorum að klikka þá vorum við ákveðnir í sóknarfráköstunum og þá fengum við oft annan séns sem getur verið svolítið niðurdrepandi fyrir andstæðinginn. Svo náttúrulega hittum við rosalega vel. Það hjálpar okkur að hitta vel.“

Lárus er hins vegar ekki þannig gerður að hann fari of hátt eftir sigur sem þennan og hann gat fundið allavega eitt atriði sem mátti laga.

„Vörnin í seinni hálfleik. Kannski voru menn að slaka aðeins of mikið á. Þeir fá allt of mikið af svona grípa skjóta tækifærum þannig að við þurfum að laga það.“

Lárus var svo spurður að því hvað þjálfarar tala um í hálfleik þegar liðið er með í kringum 30 stiga forskot í hléinu.

„Við töluðum um að byrja sterkt varnarlega. Við ætluðum að koma og vera einbeittir varnarlega. Við ætluðum ekki að vera í einhverjum upp og niður leik. Við unnum þriðja leikhluta 26-21 þannig að vörnin var allt í lagi í þriðja,“ sagði Lárus að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira