Handbolti

Strákarnir okkar í tvísýnt umspil ef þeir fá ekki HM-miða í dag

Sindri Sverrisson skrifar
Íslenska liðið endar annað hvort í 5. eða 6. sæti á EM en mikill munur er á virði þessara sæta.
Íslenska liðið endar annað hvort í 5. eða 6. sæti á EM en mikill munur er á virði þessara sæta. Getty/Jure Erzen

Þrettán þjóðir hafa tryggt sér sæti á HM karla í handbolta á næsta ári og Ísland eða Noregur bætist í þann hóp síðar í dag.

Ísland og Noregur mætast í leik um 5. sæti á EM klukkan 14.30 og með sigri getur Ísland jafnað sinn þriðja besta árangur í sögu EM. Það sem er þó mikilvægara er að leikurinn snýst um að fá öruggan farseðil á HM sem fram fer í Svíþjóð og Póllandi í janúar á næsta ári.

Aðeins þrír HM-farseðlar eru í boði á EM en þar sem að dönsku heimsmeistararnir og sænsku gestgjafarnir eru þegar með örugg HM-sæti hafa hin liðin í undanúrslitum, Frakkland og Spánn, nú tryggt sér sæti á HM og það gerir einnig Ísland eða Noregur í dag.

Gætu lent gegn Portúgal eða Slóveníu

Tapliðið í leik Noregs og Íslands þarf að fara í tveggja leikja umspil í apríl og gæti lent gegn erfiðum andstæðingi á borð við Portúgal, Hvíta-Rússland eða Slóveníu, en einnig auðveldari andstæðingum.

Það að hafa komist áfram úr sínum riðli á EM tryggði Íslandi hins vegar það að fari liðið í umspil þarf það þó ekki að mæta neinu af þessum liðum í umspili: Króatíu, Þýskalandi, Ungverjalandi, Tékklandi, Svartfjallalandi, Hollandi, Rússlandi eða Serbíu. 

Þau verða öll, ásamt Noregi eða Íslandi, í efri styrkleikaflokki þegar dregið verður í HM-umspilið.

Hvaða lið eru komin á HM?

Alls leika 32 lið á HM á næsta ári rétt eins og á heimsmeistaramótinu fyrir ári síðan í Egyptalandi, þegar þeim var fjölgað úr 24.

Evrópsku liðin sem eru nú þegar örugg um sæti á HM eru gestgjafar Póllands og Svíþjóðar, heimsmeistarar Danmerkur, og nú Frakkland og Spánn. 

Á Asíumótinu sem nú stendur yfir hefur Aron Kristjánsson stýrt Barein til HM-sætis, og Íran, Katar og Sádi-Arabía einnig tryggt sér HM-sæti. 

Í Suður-Ameríku hafa Argentína, Brasilía, Síle og Úrúgvæ gert slíkt hið sama. 

Afríkumótið fer ekki fram fyrr en í sumar og óljóst er hvenær Norður-Ameríkumótið fer fram.


Tengdar fréttir

„Eitt mesta svekkelsið á ferlinum“

Bjarki Már Elísson var hundfúll morguninn eftir að ljóst var að Ísland kæmist ekki í undanúrslit á EM og hann fór ekkert leynt með það.

Ómar Ingi nálægt markakóngstitli

Eftir mörkin ellefu gegn Svartfjallalandi í gær er Ómar Ingi Magnússon orðinn markahæstur á Evrópumótinu í handbolta með 49 mörk í sjö leikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×