HSÍ hefur þurft að leggja út fyrir miklum aukakostnaði vegna EM. Sá aukakostnaður er meðal annars tilkominn vegna þess að til að forðast kórónuveirusmit var liðið allt í hótelbúbblu á Íslandi í tíu daga fyrir mótið.
Leiguflug til Búdapest var dýrara en ráðgert var þar sem Litháar, sem áttu að verða samferða íslenska hópnum, hættu við komu til landsins, og þá hafa alls sex nýir leikmenn verið kallaðir út til Búdapest vegna kórónuveirusmita.
„Þess vegna snýr HSÍ sér til íslensku þjóðarinnar sem alltaf hefur stutt vel við bakið á sambandinu og landsliðunum okkar. Kostnaðurinn við EM hleypur á tugum milljóna og er langt umfram allar þær kostnaðaráætlanir sem gert var ráð fyrir í upphafi,“ segir í tilkynningu frá HSÍ.
Hægt er að styrkja við sambandið í vefverslun HSÍ og velja styrki upp á 2.500, 5.000 eða 10.000 krónur. Sjá nánar hér.