„Þetta er eiginlega ólýsanleg tilfinning. Ég er búinn að bíða lengi eftir þessu tækifæri. Ég ákvað þegar ég kom út að ef ég fengi tækifæri ætlaði ég að sýna að ég ætti skilið í þessu liði. Ég ætlaði ekki að vera eins og hver annar túristi. Ég ætlaði að taka þátt af fullum krafti. Þetta er ólýsanlegt og að gera þetta svona vel í þokkabót,“ sagði Þráinn í samtali við Henry Birgi Gunnarson eftir leikinn í Búdapest í dag.
Þráinn skoraði tvö mörk í leiknum og stóð fyrir sínu í vörn íslenska liðsins. Ekki er langt síðan hann fór aftur á ferðina eftir að hafa greinst með kórónuveiruna.
„Sérstaklega í ljósi að maður hefur ekki verið inni í þessu og náði ekki mörgum æfingum með landsliðinu. Og ég held ég hafi náð tveimur æfingum með Haukum eftir að ég fékk covid,“ sagði Þráinn og skaut svo létt á fyrrverandi landsliðsmanninn Ásgeir Örn Hallgrímsson.
„Þetta eru leiðinlegustu handboltaæfingar sem ég hef farið á en þær skiluðu sér í dag. Þetta er ólýsanlegt og maður trúir því eiginlega ekki enn að maður sé mættur hingað út.“
Íslendingar þurfa núna að treysta á að Danir vinni Frakka til að komast í undanúrslit. Ef Danmörk vinnur ekki spilar Íslandi um 5. sætið á EM.
„Það verður spennandi. Því miður er það þannig. Við gerðum okkar og lítið annað sem við getum gert. En Danirnir eru með mestu breiddina. Hafa ekki lent í miklu covid-veseni og þetta er drullugott lið. Þeir eru með tvo til þrjá menn í hverri stöðu og þetta á ekki að skipta máli hverjir spila,“ sagði Þráinn að lokum.