Handbolti

Stutt gaman hjá Vigni sem greindist með veiruna

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Vignir Stefánsson leikur með Íslands- og bikarmeisturum Vals.
Vignir Stefánsson leikur með Íslands- og bikarmeisturum Vals. vísir/Hulda Margrét

Vignir Stefánsson getur ekki tekið þátt í leiknum gegn Króatíu á Evrópumótinu í handbolta í dag. Hann greindist með kórónuveiruna.

Vignir kom til móts við íslenska liðið á föstudaginn ásamt samherja sínum hjá Val, Magnúsi Óla Magnússyni.

Hann kom inn á í sigrinum frækna á Frökkum, 21-29, og lék síðasta stundarfjórðung leiksins. Það voru hans fyrstu mínútur á stórmóti.

Eyjamaðurinn þarf þó að bíða eitthvað eftir næsta leik sínum á stórmóti því hann greindist með kórónuveiruna í hraðprófi í morgun. Beðið er eftir niðurstöðu PCR-prófs. Orri Freyr Þorkelsson verður eini vinstri hornamaður Íslands í leiknum gegn Króatíu á eftir.

Vignir er tíundi leikmaður Íslands sem greinist með kórónuveiruna á síðustu dögum. Þá greindist sjúkraþjálfarinn Jón Birgir Guðmundsson einnig með veiruna.

Björgvin Páll Gústavsson er aftur á móti laus úr einangrun og getur tekið þátt í leiknum í dag.

Leikurinn við Króatíu hefst klukkan 14.30 að íslenskum tíma og verður að sjálfsögðu í beinni textalýsingu á Vísi þar sem ítarlega verður fjallað um leikinn með viðtölum, einkunnagjöf og fleiru.


Tengdar fréttir

Þurfa að aflétta króatísku bölvuninni

Ef að Ísland ætlar að taka stórt skref í átt að undanúrslitum á EM í handbolta í dag þarf liðið að gera nokkuð sem Ísland hefur aldrei gert á stórmóti – vinna Króatíu.

Frá Tene til Búdapest

Vignir Stefánsson, hornamaður Vals, kom óvænt inn í íslenska liðið fyrir leikinn gegn Frökkum. Fékk að spila og stóð sig vel.

Björgvin Páll laus úr einangrun

Björgvin Páll Gústavsson, landsliðsmarkvörður í handbolta, má spila gegn Króatíu á EM í dag. Hann er laus úr einangrun sem hann var skikkaður í eftir að hafa greinst með kórónuveirusmit í síðustu viku.

Sigur í dag gæti dugað Íslandi í undanúrslit

Ísland getur komið sér í dauðafæri á að spila um verðlaun með því að vinna Króatíu á Evrópumótinu í handbolta í dag, klukkan 14.30. Sigur í dag gæti mögulega dugað Íslandi til að komast í undanúrslit og tap yrði ekki dauðadómur.

Gætum endurheimt smitaða leikmenn í dag

Það hefur ekki alveg verið á hreinu hvernig reglurnar eru varðandi leikmenn sem smitast af Covid á EM. Það er að segja hvenær þeir mega koma til baka.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.