Vignir kom til móts við íslenska liðið á föstudaginn ásamt samherja sínum hjá Val, Magnúsi Óla Magnússyni.
Hann kom inn á í sigrinum frækna á Frökkum, 21-29, og lék síðasta stundarfjórðung leiksins. Það voru hans fyrstu mínútur á stórmóti.
Eyjamaðurinn þarf þó að bíða eitthvað eftir næsta leik sínum á stórmóti því hann greindist með kórónuveiruna í hraðprófi í morgun. Beðið er eftir niðurstöðu PCR-prófs. Orri Freyr Þorkelsson verður eini vinstri hornamaður Íslands í leiknum gegn Króatíu á eftir.
A landslið karla | Nýtt smit hjá Íslandi
— HSÍ (@HSI_Iceland) January 24, 2022
Í hraðprófi sem tekið var í morgun greindist Vignir Stefánsson með jákvætt próf og er beðið eftir niðurstöðu PCR prófs.#handbolti #strakarnirokkarhttps://t.co/rwdjjKhQcN
Vignir er tíundi leikmaður Íslands sem greinist með kórónuveiruna á síðustu dögum. Þá greindist sjúkraþjálfarinn Jón Birgir Guðmundsson einnig með veiruna.
Björgvin Páll Gústavsson er aftur á móti laus úr einangrun og getur tekið þátt í leiknum í dag.
Leikurinn við Króatíu hefst klukkan 14.30 að íslenskum tíma og verður að sjálfsögðu í beinni textalýsingu á Vísi þar sem ítarlega verður fjallað um leikinn með viðtölum, einkunnagjöf og fleiru.