Ástandið hefur bitnað misilla á liðunum en Alfreð Gíslason hefur til að mynda misst út tólf leikmenn í þýska landsliðinu vegna smita á meðan að til dæmis Danir og Norðmenn hafa sloppið mun betur hingað til.
Í íslenska hópnum eru nú sex leikmenn í einangrun eftir að smit greindust í gær og í fyrradag.
„Við skoðum mótið daglega og höldum krísufundi á hverjum degi,“ sagði Martin Hausleitner, framkvæmdastjóri EHF, á rafrænum fjölmiðlafundi í dag.
Þó að smittilfellum sé enn að fjölga og fari brátt að nálgast hundrað, þrátt fyrir að mótið hafi hafist fyrir aðeins viku síðan, þá er afstaða EHF óbreytt:
„Sem stendur þá ætlum við að klára allt mótið,“ sagði Hausleitner.
Nú stendur yfir keppni í milliriðlum á EM en mótinu á að ljúka á sunnudaginn eftir rúma viku.