Körfubolti

„Við þurfum að geta slegist í 40 mínútur“

Atli Arason skrifar
Dúi Þór, leikmaður Þór Akureyri.
Dúi Þór, leikmaður Þór Akureyri. Bára Dröfn

Dúi Þór Jónsson, leikmaður Þór Akureyri, var svekktur með 35 stiga tap gegn Njarðvík í kvöld. Dúi var sérstaklega óánægður með síðari hálfleikinn hjá sínum mönnum, en það munaði bara fimm stigum á liðunum í hálfleik.

„Þetta var drullu slappt hjá okkur. Þeir börðu mikið á okkur og við náðum aldrei að mæta þeim í þeirra ákafa. Við gerðum vel í fyrri hálfleik en síðan unnu þeir okkur sannfærandi í síðari hálfleik,“ sagði Dúi í viðtali eftir leik.

„Mér fannst við ekki spila leikinn okkar nógu vel. Við vorum allt of mikið að hugsa um hvað þeir voru að gera varnarlega og reyna að stíla inn á það í staðinn fyrir að spila okkar leikkerfi,“ bætti Dúi Þór við.

„Við þurfum að geta slegist í 40 mínútur. Á móti svona góðu liði eins og Njarðvík þá þurfum við að vera í 40 mínútur að slást en ekki bara í fyrri hálfleik.“

Dúi endaði leikinn með sjö stig úr 12 skotum utan af velli. Fyrstu stig Dúa komu þó ekki fyrr en í síðari hálfleik í sjöundu skot tilraun sinni. Dúi telur sig eiga meira inni en var lítið að velta sér upp úr skotnýtingu á meðan á leiki stóð.

„Ég get klárlega gert betur. Ég var ekkert svo sáttur við sjálfan mig en við vorum samt enn þá í leik í hálfleik og ég var ekki að pæla mikið í því þá en svona eftir leikinn þá hugsar maður að ég eigi að gera betur.“

Þór er á botni deildarinnar með tvö stig og næsti leikur liðsins er gegn Vestra sem Þór verður hreinlega að vinna ef þeir ætla að halda sér í deildinni.

„Já það er seinasta líflínan okkar ef við ætlum að vera í baráttu. Við þurfum að vinna Vestra. Þeir koma norður til okkar en okkur líður mjög vel á heimavelli. Við ætlum að taka þann leik,“ sagði Dúi Þór Jónsson, leikmaður Þór Akureyri, að endingu.

 
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.