Körfubolti

Þristur Söru Rúnar upphafið af ótrúlegri endurkomu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sara Rún Hinriksdóttir í leik með íslenska landsliðinu.
Sara Rún Hinriksdóttir í leik með íslenska landsliðinu. Vísir/Bára Dröfn

Sara Rún Hinriksdóttir og félagar hennar í Phoenix Constanta unnu þriggja stiga útisigur á CS Universitatea Cluj-Napoca í rúmensku körfuboltadeildinni í dag.

Phoenix Constanta hefði misst Cluj-Napoca upp fyrir sig með tapi en er nú í sjötta sætinu með sex sigra og sjö töp.

Körfuknattleikskona ársins í fyrra var með sjö stig, fjögur fráköst og þrjá stoðsendingar í leiknum sem er undir hennar meðaltali. Sóknarleikur liðsins gekk illa nær allan tímann og Sara hitti meðal annars aðeins úr 2 af 9 skotum sínum utan af velli.

Það leit þó ekki út fyrir sigur þegar Cluj-Napoca var tólf stigum yfir, 56-44, þegar aðeins sjö mínútur voru eftir.

Sara og félagar hennar í Phoenix Constanta skoruðu fimmtán síðustu stig leiksins og unnu leikinn 59-56.

Þristur Söru Rúnar kom muninum niður fyrir tíu stigin og var upphafið af endurkomunni.

Sara átti líka stoðsendinguna þegar lið hennar náði forystunni og stal boltanum þegar hálf mínúta var eftir.

Sara tók boltann þá af Kiönu Johnson sem margir kannast við enda varð hún Íslandsmeistari með Valskonum á síðustu leiktíð. Kiana var með fjórtán stig, sex fráköst og fimm stoðsendingar í leiknum.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.