Körfubolti

Í sögubækurnar með ótrúlegum leik en uppskeran engin

Sindri Sverrisson skrifar
Trae Young átti stórkostlegan leik í nótt en það dugði skammt.
Trae Young átti stórkostlegan leik í nótt en það dugði skammt. AP/Craig Mitchelldyer

Þó að Atlanta Hawks hafi orðið að sætta sig við tap, 136-131, gegn Portland Trail Blazers má segja að Trae Young hafi stolið senunni í NBA-deildinni í körfubolta í nótt með stórkostlegum sóknarleik.

Young skráði sig í sögubækurnar með því að skora heil 56 stig í leiknum, fleiri en hann hefur gert í leik á ferlinum, auk þess að gefa 14 stoðsendingar. Hann hitti úr 17 af 26 skotum sínum og úr öllum 15 vítum sínum.

Enginn leikmaður hefur skorað fleiri stig í einum leik á þessari leiktíð og í allri NBA-sögunni hafa raunar bara fimm aðrir leikmenn náð að skora 55 stig og gefa 10 stoðsendingar í einum leik. Hinir eru býsna kunnir: James Harden (þrisvar sinnum), Michael Jordan, Oscar Robertson, Russell Westbrook og Tony Parker.

Young er þó eini þeirra sem náð hefur að setja niður 56 stig og gefa 14 stoðsendingar í sama leik.

Um tíma var útlit fyrir að þessi tröllaframmistaða dygði Atlanta til sigurs en þegar leið á fjórða leikhluta komust heimamenn í Portland yfir. Young minnkaði muninn í tvö stig þegar 55 sekúndur voru eftir en nær komust gestirnir ekki.

Anfernee Simons, sem var litlu síðri en Young og skoraði 43 stig fyrir Portland, var öruggur á vítalínunni í lokin og gerði endanlega út um vonir Atlanta.

Af öðrum leikjum má nefna að Chicago Bulls styrktu stöðu sína á toppi austurdeildar með áttunda sigri sínum í röð þegar þeir unnu Orlando Magic, 102-98. DeMar DeRozan skoraði 29 stig og Zach LaVine 27.

Brooklyn Nets töpuðu hins vegar þriðja leik sínum í röð þegar liðið tók á móti Memphis Grizzlies sem unnu 118-104 sigur. Chicago er því með tveggja sigra forskot á Brooklyn á toppi austurdeildarinnar.

Golden State Warriors eru áfram efstir í vesturdeildinni eftir 115-108 sigur gegn Miami Heat.

Úrslitin í nótt:

  • Philadelphia 133-113 Houston
  • Washington 124-121 Charlotte
  • Brooklyn 104-118 Memphis
  • Chicago 102-98 Orlando
  • Milwaukee 106-115 Detroit
  • New Orleans 104-115 Utah
  • Dallas 103-89 Denver
  • Golden State 115-108 Miami
  • Portland 136-131 Atlanta
  • LA Clippers 104-122 Minnesota

NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×