Umfjöllun og viðtöl: KR - Þór Ak. 83-74 | KR náði í sigur í leik tveggja hálfleika

Árni Jóhannsson skrifar
visir-img
vísir/bára

KR vann Þór frá Akureyri í 10. umferð Subway deildar karla í körfubolta í kvöld 83-74. Þeir þurftu að hafa fyrir sigrinum en gestirnir að norðan voru mun betri í fyrri hálfleik en ungæðisháttu, seigla og reynsla KR liðsins varð til þess að þeir unnu leikinn með góðum fjórða leikhluta.

Þórsarar byrjuðu mikið betur og þegar fyrsti leikhluti var hálfnaður var staðan 3-12 fyrir gestina og KR-ingar voru sofandi og búnir að tapa fjórum boltum á þeim tímapunkti. Gestirnir fengu hið fínasta sjálfstraust við þessa góðu byrjun og sölluðu niður þristum og juku forskotið jafnt og þétt á meðan Shawn Glover var sá eini með lífsmarki í sóknarleik heimamanna. Þegar fyrsta leikhluta var lokið var staðan 15-26 fyrir Þór og gestirnir á fljúgandi siglingu.

Í upphafi annars leikhluta héldu gestirnir uppteknum hætti og komust mest í 15 stiga forskot, 15-30 áður en leikurinn jafnaðist út í smástund en þegar um fjórar mínútur voru eftir af leikhlutanum kviknaði á KR og skoruðu þeir 15 stig á móti tveimur frá Þór þannig að leikar stóðu jafnir þegar gengið var til búningsherbergja í  stöðunni 34-34. Varnarleikur KR small þá saman í þessar mínútur og við það komst sóknarleikur liðsins í góðan takt. Stigahæstur var Shawn Glover með 12 stig en Atle Ndiaye var kominn með níu stig fyrir gestina.

Gestirnir byrjuðu leikinn mjög vel í seinni hálfleik og komust aftur í sjö stiga forskot þegar óheppnin reið aftur yfir liðið þegar um fjórar mínútur voru liðnar af þriðja leikhluta. Þá stal Jérémy Landenburg boltanum fyrir Þór, geystist upp til að skora en hitti ekki sniðskotinu og lenti illa. Hann var studdur af velli og lítur út fyrir að hann hafi meiðst alvarlega á hné og jafnvel slitið krossband. Það er enn eitt meiðslaáfallið fyrir Þór frá Akureyri í vetur.

Leikurinn hélt svo áfram en var í miklu jafnvægi. Liðin skiptust á litlum áhlaupum og þegar fjórðungnum lauk voru gestirnir með sex stiga forskot fyrir lokaátökin. Staðan 60-54 fyrir Þór.

Fjórði leihluti hófst og þá sagði KR hingað og ekki lengra. Þeir fóru á 11-2 sprett þar sem varnarleikurinn var leikinn hart og skotin fóru að detta fyrir þá en framan af hafði nýting þeirra ekki verið góð. Heimamenn komust yfir í stöðuna 65-62 og þá jafnaðist leikurinn aftur og skipst var á körfum þangað til um þrjár mínútur voru eftir en þá stigu heimamenn aftur á bremsuna og slitu sig 11 stigum frá gestunum í stöðuna 81-70 og sigldu sigrinum heim í örugga höfn 83-74. KR-ingar eru líklega mjög fegnir að hafa náð í sigur en þeir höfðu ekki unnið leik í þrjá leiki á undan. Það gerir mikið fyrir andann í liðum þegar sigrarnir koma í hús.

Afhverju vann KR?

Varnarleikur þeirra varð bestur þegar mest á reyndi í fjórða leikhluta. Það gerði það að verkum að þeir náðu góðu áhlaupi á lið Þórsarar sem hafa brotnað áður og því fór sem fór. Leikmenn Þórs eru líklega svekktastir út í sig sjálfa fyrir að hafa gloprað þessu niður því þeir spiluðu mjög vel á mjög löngum köflum í kvöld.

Bestir á vellinum?

Shawn Glover komst í mjög góðan takt í kvöld en hann skoraði 28 stig og tók 10 fráköst. Hann fékk góða hjálp frá Adama Darbo sem skilaði 22 stigum í hús og sex stoðsendingum.

Hjá Þór var Atle Ndiaye stigahæstur með 20 stig en Dúi Þór Jónsson átti aftur mjög flottan leik með níu stig og 12 stoðsendingar. Einnig stal Dúi þremur boltum og var mjög ákveðinn í sínum aðgerðum.

Tölfræði sem vakti athygli

KR hitti bara úr einu þriggja stiga skoti í fyrri hálfleik úr 11 tilraunum. Í seinni háfleik var sagan allt önnur og skoruðu þeir níu þriggja stiga körfur sem hefur líklega hjálpað til við að hala inn sigurinn.

Hvað næst?

Nú tekur við smá pása þangað til 11. umferðin verður leikin milli jóla og nýárs. KR heldur þá í austur alla leið á Hlíðarenda og etur kappi við Valsmenn á meðan Þórsarar fá Tindastól í heimsókn og hafa þar með eitt tækifæri í viðbót til að ná í sigur í fyrri umferð deildarinnar.

Bjarki Ármann: Leikmenn eru þreyttir og í lélegu formi og það er bara óásættanlegt í úrvalsdeildinni

Bjarki virtist brjóta þjálfara spjaldið sitt undir lok leiksins en það slapp víst en hann var spurður út í hvað hann væri ósáttastur við leik sinna manna í kvöld.

„Aftur er það bara framkvæmd okkar í sókn í lokin þar sem það kemur okkur í koll að hafa spilað fáa jafna leiki. Leikmenn eru þreyttir og í lélegu formi og það er bara óásættanlegt í úrvalsdeildinni.“

„Við þurfum bara að fara að einbeita okkur að næsta leik á móti Tindastól. Sem við ætlum að vinna eins og alla leiki en KR voru bara flottir hérna í lokin og settu niður stór skot og gaman að sjá unga menn í góðum hlutverkum.“

Bjarki var þá spurður út í sinn unga leikmann, Dúa Þór, sem hefur verið mjög góður í vetur.

„Dúi er bara frábær leiðtogi innan vallar sem utan. Hann er með mikið keppnisskap og drífur þetta svona áfram fyrir okkur.  Hann hefur verið jafnbesti leikmaður okkar í vetur.“

Þá var Bjarki spurður út í erlendu leikmennina sína og hvernig þeir væru að komast inn í leik þeirra en mikil velta hefur verið á erlendum leikmönnum hjá Þór af illri nauðsyn.

„Við missum Jéremy út núna og í fyrstu lítur þetta út fyrir að vera alvarlegt. Það hefði verið gott að vera með hann í lok leiks. Ég var digurbarkarlegur fyrir leik að loksins værum við með heilt lið. Við erum bara ekki að klikka nógu vel saman og það skrifast náttúrlega fyrst og fremst á mig að gera ekki betur með þennan mannskap sem ég er með í höndunum.“

Bjarki var þá spurður út í hvort hann væri eitthvað að spá í því hvað hann hafi mögulega gert til að vera svona óheppinn með meiðsli leikmanna.

„Ég þarf kannski að fara að létta á þessu á æfingum“, sagði Bjarki léttur þrátt fyrir erfiða stöðu.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira