Körfubolti

KR-ingar missa landsliðsmanninn sinn til Hollands

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þórir Guðmundur Þorbjarnarson fagnar körfu með KR í vetur.
Þórir Guðmundur Þorbjarnarson fagnar körfu með KR í vetur. Vísir/Bára Dröfn

KR-ingurinn Þórir Guðmundur Þorbjarnarson er á leiðinni í atvinnumennsku en hann hefur samið við hollenska úrvalsdeildarliðið Landstede Hammers.

KR-ingar segja frá því að þeir séu að missa landsliðsmanninn á miðju tímabili en Þórir hefur spilað mjög vel að undanförnu með KR-liðinu.

KR-ingar hafa verið að glíma við meiðsli lykilmanna að undanförnu og það er ljóst að þessir missir er ekki viðbætandi. Þeir standa hins vegar ekki í vegi fyrir því að enn einn leikmaður úr unglingastarfi félagsins kemst út í atvinnumennsku.

„Ég er mjög spenntur fyrir þessu, þetta er frábært tækifæri í skemmtilegri deild. Á sama tíma er erfitt að skilja við KR á miðju tímabili og ég er þakklátur fyrir stuðninginn og skilninginn. Ég óska liðinu góðs gengis og fylgist spenntur með,“ sagði Þórir í viðtali við heimasíðu KR.

Landstede Hammers leikur í BNXT deildinni en í henni leikur einnig Antwerp Giants sem er félag landsliðsmannsins Elvars Más Friðrikssonar.

Þórir er uppalinn KR-ingur en hafði verið í bandarískum háskóla undanfarin ár. Hann varð nokkrum sinnum Íslandsmeistari með KR áður en hann fór út í skóla.

Þórir er með 15,9 stig, 10,5 fráköst og 4,8 stoðsendingar að meðaltali í leik í átta leikjum með KR liðinu í Subway-deildinni í vetur. Í nóvember og desember hafði hann hækkað þessar tölur í 17,8 stig, 11,3 fráköst og 7,8 stoðsendingar að meðaltali í leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×