Handbolti

Seinni bylgjan um mar­ka­­flóð Einars: „Að skjóta sex­­tán sinnum finnst mér vera af­rek“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Einar Bragi sá til þess að HK náði í sitt fyrsta stig.
Einar Bragi sá til þess að HK náði í sitt fyrsta stig. Seinni bylgjan

HK náði loks í stig í Olís-deild karla er liðið gerði jafntefli við ÍBV í Vestmannaeyjum, lokatölur 39-39 í ótrúlegum leik. Gestirnir geta þakkað Einari Braga Aðalsteinssyni fyrir stigið en kappinn skoraði 16 mörk í leiknum.

Stefán Árni Pálsson og sérfræðingar Seinni bylgjunnar áttu í raun erfitt með að finna orð til að lýsa frammistöðu Einars Braga í Eyjum.

„Þetta var einhver ótrúlegasta frammistaða sem ég man eftir. Þegar HK liðið kom í myndatöku til okkar á sínum tíma þá var þetta trúðurinn í hópnum, hann var hrikalega hress og skemmtilegur þessi drengur,“ byrjaði Stefán Árni á að segja um magnaða frammistöðu Einars Braga.

„Hélst að hann væri bara með því hann væri góður í klefanum,“ skaut Jóhann Gunnar Einarsson inn í.

Klippa: Seinni bylgjan fór yfir frammistöðu Einars Braga

„Hann missti aðeins af byrjuninni svo maður er tiltölulega nýbyrjaður að kynnast honum. Að skora 16 mörk í Olís-deildinni er heljarinnar afrek. Tala nú ekki um ef þú ert 19 ára, maður var varla farinn að spila 19 ára. Að skjóta 16 sinnum í leik finnst mér vera afrek,“ bætti Jóhann Gunnar við.

„Hann var hreint út sagt frábær. Það er eitthvað í gangi þarna, 19 ára með þessa hæfileika. Þetta er gæi sem er óhræddur og mér fannst hann geggjaður.“

„Mjög flott mörk og gaman að sjá að það er eitthvað í gangi hjá HK. Þeir eru að bæta sig með hverjum leiknum og þetta er væntanlega ekki síðasta stigið sem þeir ná í,“ sagði Rúnar Sigtryggsson að endingu.

Einar Bragi átti ótrúlegan leik í Eyjum.Seinni bylgjan

Seinni bylgjan er uppgjörsþáttur Stöðvar 2 Sports um Olísdeildir karla og kvenna í handbolta og er á dagskrá öll mánudagskvöld. Upptökur af þættinum má nálgast á sjónvarpsvef Stöðvar 2. Olísdeildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.