Umfjöllun: ÍBV - HK 39-39 | Botnliðið sótti fyrsta stigið í ótrúlegum markaleik

Einar Kárason skrifar
ÍBV skoraði 39 mörk en það dugði ekki til sigurs.
ÍBV skoraði 39 mörk en það dugði ekki til sigurs. Vísir/Hulda Margrét

HK-ingar sóttu sitt fyrsta stig á tímabilinu með því að skora 39 mörk gegn ÍBV í Vestmannaeyjum. Þessi fjöldi marka ætti að duga til sigurs í langflestum handboltaleikjum, en heimamenn skoruðu einnig 39 og því varð jafntefli niðurstaðan. Gestirnir úr Kópavogi byrjuðu leikinn af krafti. Mikið jafnræði var með liðunum í upphafi leiks og var leikið af miklum krafti og hraða. 

Eftir jafna byrjun tókst HK að skapa ágætis forskot og leiddu með fjórum mörkum um miðjan fyrri hálfleikinn. Í stöðunni 8-12 misstu gestirnir tvo leikmenn úr leiknum, með rautt spjald og í meiðsli, og gengu heimamenn á lagið. Örfáum mínútum síðar var staðan orðin 14-13 fyrir ÍBV og botnliðið í allskonar vandræðum. Heimamenn náðu mest fimm marka forskoti í fyrri hálfleik og var staðan 20-15 þegar leikmenn gengu til búningsherbergja. 

Það má gera ráð fyrir að í hálfleik hafi flestir hafi búist við tíunda tapleik HK í röð í Olís deildinni. Gestirnir skoruðu hinsvegar fyrstu tvö mörk síðari hálfleiksins og ljóst ekki var búið að kasta árum í bát. Eftir stundarfjórðung í síðari hálfleik var staðan orðin 26-28 og HK því búið að skora þrettán mörk gegn sex mörkum ÍBV. 

Leikurinn var gríðarlega spennandi það sem eftir lifði og höfðu gestirnir forustu allt fram að því að rétt rúmar fimm mínútur eftir lifðu leiks. Staðan 33-33 og lítið eftir. Á þessum fáu mínútum voru hinsvegar skoruð tólf mörk, sex á hvort lið. Enduðu leikar því 39-39 í hreint út sagt stórundarlegum handboltaleik.

Af hverju endaði leikurinn með jafntefli?

Bæði lið spiluðu frábæra sókn en afar takmarkaða vörn. Sjötíu og átta mörk skoruð á sextíu mínútum er ekki eitthvað sem gerist í hverri umferð.

Hverjir stóðu upp úr?

Kári Kristján Kristjánsson og Dagur Arnarsson skoruðu sitthvor sex mörkin fyrir ÍBV en Arnór Viðarsson, sem byrjaði leikinn vel, var þeim næstur með fimm. Þá varði Björn Viðar Björnsson ellefu skot í marki ÍBV.

Hjá gestunum dró Einar Bragi Aðalsteinsson vagninn í markaskorun en hann skoraði heil sextán mörk, þar af fjögur úr vítum. Hafsteinn Óli Ramos Rocha og Sigurður Jefferson Guarino skoruðu sjö. Sigurjón Guðmundsson varði ellefu skot í markinu.

Hvað gekk illa?

Bæði lið treystu á að skora fleiri mörk en andstæðingurinn, eins og íþróttin gengur út á, en í dag var það gert á kostnað varnarleiks. Fyrir utan einstaka kafla, sem vörðu ekki lengi, var lítil sem engin vörn spiluð. 

Hvað gerist næst?

Eyjamenn fá Víkinga í heimsókn í næstu umferð á meðan HK gerir sér ferð norður á Akureyri og á þar leik við KA.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.