Viðskipti innlent

Frum­herji endur­skoðar eignar­haldið

Eiður Þór Árnason skrifar
Frumherji er með 32 starfsstöðvar víðs vegar um landið.
Frumherji er með 32 starfsstöðvar víðs vegar um landið. Frumherji

Orri Hlöðversson, framkvæmdastjóri Frumherja, og Andri Gunnarsson stjórnarformaður keyptu á dögunum út aðra hluthafa félagsins.

Seljendurnir eru Fannar Ólafsson, Þórður Kolbeinsson og Kristján Grétarsson sem áttu hver um sig fjórðungshlut í eignarhaldsfélaginu Tiberius ehf. Félagið fór með 95% hlutafjár í Frumherja á móti 5% hlut Orra.

Fjórmenningarnir Andri, Fannar, Þórður og Kristján keyptu fyrirtækið af Íslandsbanka árið 2016. Eftir viðskiptin fer Andri með 80% hlut í Frumherja og Orri 20% en með í kaupunum fylgir fasteignafélagið Fastherji ehf.

Andri segir í samtali við Vísi að gengið hafi verið frá kaupunum á miðvikudag sem hafi átt sér fremur skamman aðdraganda. Hann bætir við að rekstur fyrirtækisins hafi gengið vel á seinustu árum og eigendurnir séu bjartsýnir á framtíðina. Kaupverð er trúnaðarmál.

Tekjusamdráttur í samkomubanni

Hagnaður Frumherja hf. nam 30,4 milljónum króna í fyrra samkvæmt ársreikningi. Tekjur drógust saman um 6,31% milli ára og námu um 1,43 milljörðum króna. Bókfært eigið fé félagsins var 130,42 milljónir króna í árslok 2020 og eiginfjárhlutfall 12%. Veruleg óvissa var á tímabili um hvaða áhrif kórónuveirufaraldurinn myndi hafa á rekstur Frumherja árið 2020 en að endingu urðu neikvæð áhrif minni en óttast var af framan af.

Um hundrað manns vinna hjá Frumherja á 32 starfstöðvum víðs vegar um landið. Veitir fyrirtækið meðal annars þjónustu á sviði bifreiða-, fasteigna- og skipaskoðana, og sér um framkvæmd allra ökuprófa á landinu. Þá rekur Frumherji prófunarstofu fyrir löggildingu mælitækja á borð við vogir, dælur, raforkumæla og vatnsmæla.

Frumherji varð til árið 1997 við uppskiptingu Bifreiðaskoðunar Íslands. Bifreiðaskoðunarhlutinn varð að Frumherja en Skráningarstofan hf. sem varð síðar að Samgöngustofu tók við rekstri ökutækjaskrár og stjórnsýsluhlutverki frá Bifreiðaskoðun Íslands. Frumherji var upphaflega í helmingseigu íslenska ríkisins líkt og Bifreiðaskoðun Íslands en stjórnvöld seldu síðar sinn hlut í fyrirtækinu.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×