Handbolti

Afturelding 29 mörk í mínus á móti Val á árinu 2021 en getur lagað það í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Valsmenn fagna öruggum sigri á Aftureldingu í undanúrslitaleik bikarsins í haust.
Valsmenn fagna öruggum sigri á Aftureldingu í undanúrslitaleik bikarsins í haust. Vísir/Daníel Þór

Valur tekur á móti Aftureldingu í kvöld í lokaleik níundu umferðar Olís deildar karla í handbolta en þetta ætti að vera öruggur heimasigur ef marka má fyrri viðureignir liðanna á þessu ári. Afturelding hefur því ýmislegt að sanna í kvöld.

Gestirnir úr Aftureldingu geta líka náð Val að stigum með sigri í kvöld en Valsliðið hefur gert tvö jafntefli i röð og ekki unnið deildarleik í næstum því heilan mánuð.

Síðasti deildarsigur Valsamanna var 24. október síðastliðinn þegar liðið vann 35-26 sigur á KA fyrir norðan. Síðan hefur liðið tapað fyrir Stjörnunni og gert jafntefli við bæði Hauka og FH.

Afturelding vann síðasta leik sinn fyrir viku síðan og hefur unnið þrjá af síðustu fjórum leikjum sínum í Olís deildinni.

Gengi liðanna er því Aftureldingu í hag en þegar kemur að síðustu innbyrðis leikjum liðanna þá er allt aðra sögu að segja.

Þrjár viðureignir Vals og Aftureldingar á þessi almanaksári hafa allar farið á sama veg eða með stórsigri Valsliðsins.

Valsmenn hafa unnið báða deildarleikina með níu mörkum og unnu síðan bikarleik liðanna í haust með ellefu marka mun. Valsmenn eru því 29 mörk í plús í þremur leikjum sínum á móti Mosfellsliðinu á árinu 2021.

Mosfellsliðið getur þó huggað sig við það að markahæstu menn Valsmanna í þessum leikjum, Anton Rúnarsson (13 mörk 22. febrúar), Róbert Aron Hostert (6 mörk 27.maí) og Magnús Óli Magnússon (10 mörk 1. október) verða ekki með. Anton fór út í atvinnumennsku eftir tímabilið en þeir Róbert Aron og Magnús Óli hafa báðir verið að glíma við meiðsli.

Leikur Vals og Aftureldingar hefst klukkan 19.00 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport. Strax á eftir, um klukkan 20.40, verður síðan Seinni bylgjan þar sem öll níunda umferðin verður gerð upp.

  • Leikir Vals og Aftureldingar árið 2021:
  • Deildarleikur 22. febrúar: Valur vann 9 marka sigur (30-21)
  • Deildarleikur 27. maí: Valur vann 9 marka sigur (34-25)
  • Bikarleikur 1. október: Valur vann 11 marka sigur (32-21)Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.